132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lokun veiðisvæða.

468. mál
[12:47]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði hérna. Svæðastýring er breyta sem við þurfum að beita við fiskveiðistjórn og veiðarfærastýring er sömuleiðis hlutur sem við þurfum að beita við fiskveiðistjórn og það erum við auðvitað að gera í vaxandi mæli.

Ég tek sígilt dæmi, þ.e. þær breytingar sem við höfum verið að gera á möskvastærð á netafiski sem er auðvitað dæmi um að við erum að beita veiðarfærastýringum og við erum líka að gera það með þeim hætti þegar við erum að loka fyrir togveiðar víða um landið. Við höfum verið að gera þetta með býsna markvissum hætti og býsna grimmum og hörðum hætti. Við höfum verið að loka fyrir t.d. togveiðar víða á hefðbundinni togslóð og við höfum gengið nokkuð hart fram í þeim efnum. Þetta þurfum við hins vegar stöðugt að hafa til endurskoðunar vegna þess að aðstæður í lífríkinu eru að breytast. Við vitum að hitastig í sjónum hefur verið að breytast og þetta kallar auðvitað á að við þurfum stöðugt að hafa þetta undir. Það er enginn nýr sannleikur að við þurfum að gera það. Þetta er bara hluti af daglegu starfi yfirvalda á öllum tímum að reyna að fara yfir þessa hluti.

Eins og ég nefndi áðan í ræðu minni þá var á sínum tíma tekin ákvörðun um að reyna að fækka skyndilokunum og gera það þannig að bærilegt væri vegna þess að þótt skyndilokanirnar séu nauðsynlegar á margan hátt þá ollu þær hins vegar líka ákveðnum erfiðleikum við veiðarnar. Menn voru kannski að stíma um langan veg inn á hafsvæði og síðan var öllu lokað þegar menn voru búnir að vera þar að veiðum í fáeina daga eða ekki einu sinni það. Þess vegna var samkomulag um það á sínum tíma að reyna að ganga þá heldur lengra í reglugerðarlokunum og hafa skyndilokanirnar væntanlega færri og það tókst.

Nú hafa aðstæður hins vegar verið að breytast og þá þurfum við að fara yfir þessa hluti aftur. Það erum við svo sem að gera alla daga en með skipulegri hætti, að minni ósk, er verið að gera það núna.