132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Innlausn fiskveiðiheimilda.

536. mál
[12:52]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji að ríkið ætti að innleysa til sín fiskveiðiheimildir sem ekki eru nýttar á yfirstandandi fiskveiðiári og endurúthluta þeim. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru ákvæði sem lúta að þessu. Það eru ýmsar heimildir til að auka sveigjanleika í þessu kerfi, m.a. með því að flytja aflamark á milli ára og enn fremur að fiska umfram aflamark að einhverju leyti til að búa til ákveðna sveigju og síðan er sú tegundatilfærsla sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni.

Við ræddum þessa tegundatilfærslu mjög mikið fyrir fáeinum árum þegar þau mál voru sérstaklega til umræðu á grundvelli fyrirliggjandi frumvarps og á þeim tíma var tekin ákvörðun um að þrengja möguleika á tegundatilfærslunum. Það var gert m.a. til að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. þingmaður var með en menn vildu ekki ganga lengra af ýmsum ástæðum vegna þess að það gat valdið erfiðleikum, ekki síst hjá minni útgerðum sem þá létu til sín heyra.

Við vitum líka að það eru ákveðnar reglur sem gilda um hvað menn verði að fiska á ári hverju til að halda veiðirétti sínum. Á sínum tíma var tekin ákvörðun um að þrengja þessar heimildir, þ.e. að auka veiðiskylduna og koma í veg fyrir að menn gætu ár eftir ár komist undan því að veiða það sem þeim bæri að veiða og þetta hafði auðvitað margs konar áhrif. Þetta var eitt af þeim málum sem líka var gagnrýnt, m.a. af þeim útgerðarmönnum sem höfðu verið að leigja til sín aflaheimildir en þeir töldu að með þessu værum við að þrengja að leiguheimildunum og möguleikum manna til að hasla sér völl t.d. eins og hv. þingmaður hefur oft verið að vitna til í ræðu sinni, með nýliðuninni. Ég er að vísu ekki sammála því. Ég tel að það sé eðlilegt að sú regla sé almenn að menn séu að fiska sem mest af aflaheimildum sínum og þess vegna hafi það verið eðlilegt að auka veiðiskylduna. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess, eins og hv. þingmaður var að tala um hér, að gerðar yrðu annaðhvort upptækar eða keyptar af mönnum aflaheimildir sem þeir ekki nýttu. Ég tel miklu eðlilegra að hafa þessar reglur þannig að þær séu almennar sem hvetja til þess og gera það að verkum að menn verði að veiða sem mest af aflaheimildum sínum. Auðvitað geta komið upp aðstæður eins og við þekkjum eins og t.d. kom upp í rækjunni þegar rækjan veiddist ekki og efnahagslegar forsendur voru ekki lengur til að veiða rækjuna. Þá komu auðvitað upp tilvik eins og þau sem hv. þingmaður er að nefna og það hefur líka komið upp í einstökum tegundum eins og grálúðu og fleiri tegundum en almennt talað tel ég að þetta sé ekki stórvandamál. Auðvitað er það þannig að útgerðarmenn sjá fyrst og fremst hag sínum best borgið með því að reyna að fénýta þessar aflaheimildir með því að veiða þær. Og það er auðvitað þannig sem við sjáum að þetta er að gerast og það er í mjög fáum tilvikum auðvitað sem það gerist að aflaheimildir brenna inni. Það er við tilteknar aðstæður eins og ég var að nefna sem gera það að verkum að það er mjög erfitt fyrir menn að líta á þessar aflaheimildir.