132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Innlausn fiskveiðiheimilda.

536. mál
[12:58]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var innleitt á sínum tíma til að vernda fiskstofna. Helst gat maður ályktað þegar maður hlustaði á hæstv. ráðherra tala áðan að kerfið væri til að vernda útgerðarmenn og hagsmuni þeirra. Það er ekki svo. Kerfið er sett á til að vernda fiskstofnana í hafinu í kringum Ísland og eftir því sem okkur er sagt byggir það á mjög vísindalegum rökum og nákvæmum útreikningum. Því hlýtur það að vera stórundarlegt þegar búið er að reikna út veiðiþol ákveðinna stofna og ákveðinna tegunda og gefa út kvóta á þær tegundir, að menn megi og geti í stórum stíl ákveðið að breyta þeim tegundum í eitthvað annað og hefja veiðar á stofni sem líka var búið að reikna út veiðiþol á, langt umfram það sem gefið var út í kvóta. Þetta kerfi er orðið galið og við hljótum að verða að fara að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að bregðast við því að fiskverndin virkar ekki. Stofnarnir eru alltaf að minnka.