132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson spyr mig tveggja spurninga:

„1. Telur ráðherra að samráð eigi sér stað um verðlagningu fiskveiðiheimilda á markaði, en þar virðist leiguverð víðast það sama?

2. Hefur ráðherra staðið fyrir skoðun á því hvernig verðmyndun á leiguverði fiskveiðiheimilda á sér stað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra standa að slíkri skoðun?“

Ég vil leyfa mér að svara þessum spurningum í samhengi vegna þess að það fer betur á því. Ég vek athygli á því að verð á leigumarkaði hefur síðustu ár verið býsna stöðugt. Árlega eru einhverjar sveiflur, þær ráðast fyrst og fremst af framboði og eftirspurn eins og gengur, auk þess sem verð á mörkuðum hefur þar áhrif á. Lækkun gengisins síðustu daga hefur leitt til þess að verð á þorski hefur hækkað nokkuð að undanförnu og eins hefur verð á skötusel hækkað vegna meiri afla í þeirri tegund.

Kvótaþing starfaði á tímabilinu 1. september 1998 til 31. maí 2001. Á Kvótaþingi áttu aðilar viðskipti með aflamark á opinberum tilboðsmarkaði. Eftir að Kvótaþingið var lagt af hefur verið skylt að gefa upp verð aflamarks í viðskiptum og skráir Fiskistofa það og birtir opinberlega á vef sínum. Viðskipti með aflamark fara núna fram á frjálsum markaði. Fiskistofa hefur það hlutverk að skrá upplýsingar um verð aflamarks sem fram kemur frá tilkynnanda og birta upplýsingar á vef stofnunarinnar eftir því sem heimilt er samkvæmt upplýsingalögum. Sé verð í tilkynningu um færslu aflamarks á milli skipa í eigu tveggja eigenda bersýnilega langt undir því sem almennt er, er óskað eftir skriflegum útskýringum og að þeim fengnum er flutningur aflamarks staðfestur.

Fiskistofu er ekki heimilt samkvæmt lögum að hafna flutningi aflamarks á þeim grundvelli að verð sé með einhverjum hætti óeðlilegt. Eftirlitsskylda Fiskistofu í gildandi lögum miðar að því að tryggja að áhafnir skipa séu ekki látnar taka þátt í kaupum útgerðar á aflaheimildum, enda er slíkt óheimilt samkvæmt lögum um skiptaverðmæti á greiðslujöfnuði innan sjávarútvegsins. Sá tilgangur kemur fram í lögum um stjórn fiskveiða en þar segir að Fiskistofa megi ekki staðfesta flutning aflamarks nema fyrir liggi staðfesting frá Verðlagsstofu skiptaverðs um að samningur sé í gildi milli áhafnar og útgerðar um fiskverð til hlutaskipta. Ég vil vekja athygli á í þessu sambandi að forustumenn sjómanna hafa einmitt bent á að umkvörtunum og ásökunum um að sjómenn séu að taka þátt í kvótakaupum hafi fækkað mjög á seinni árum og það virðist benda til þess að þetta eftirlit hafi þar með verið að virka, bæði vegna upplýsingagjafar verðlagsstofunnar og eins vegna eftirlits Fiskistofu.

Ef ég vík frekar að spurningu fyrirspyrjanda verður að segja að almennt ráða seljendur meiru um verð þegar eftirspurn er meiri en framboðið og þannig hefur það verið í mörgum tilvikum, þó ekki öllum. Ekki er unnt að segja að um sé að ræða samráð en vitanlega liggur alltaf á borðinu, m.a. vegna upplýsingagjafar Fiskistofu, hvaða verð hefur verið að fást fyrir hverja tegund á hverjum tíma og seljendur taka vitaskuld mark á því þegar þeir bjóða aflaheimildir til sölu. Ég tel það ekki vísbendingu um að um samráð sé að ræða þegar það gerist að verð leitar í eina átt eða er svipað á tilteknum tíma. Það er að mínu mati eingöngu til merkis um að menn vinna samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir á markaðnum og þær upplýsingar, eins og ég hef verið að rekja, eru býsna opnar, bæði vegna ákvæðis um verðlagsstofuna og líka vegna þess að Fiskistofa leggur fram þessar upplýsingar. Síðan eru auðvitað kvótamiðlanir sem vinna á þessum vettvangi og þær afla upplýsinga um kvótaverðið á hverjum tíma. Það er því ljóst að þessi viðskipti milli óskyldra aðila eru mjög mikil. Um er að ræða þúsundir viðskipta sem eiga sér stað þannig að ég hygg að ekki sé gott að koma við samráði, jafnvel þótt einhver kysi að reyna það.

Það er líka ljóst af því sem ég hef verið að segja að það eru býsna skýrar reglur um hvernig leiguviðskiptin ganga fyrir sig og hver sé í raun ramminn sem útgerðarmönnum er ætlaður. Engu að síður er það svo að mínu mati að það er sitthvað sem þyrfti að fara yfir í þessum efnum og margt sem mætti betur gera og ég tel eðlilegt að þessi mál séu endurskoðuð sérstaklega í ljósi þess. Við höfðum reynslu af Kvótaþinginu. Það fyrirkomulag gekk ekki og var mikil óánægja með það hjá öllum sem reyndu að vinna innan þess kerfis. Ég held því að það séu ákveðin víti til að varast. Það er hins vegar ljóst að verðmyndun er ekki alveg augljós og þess vegna tek ég undir það sem ég tel að komið hafi fram í máli hv. þingmanns að fara þurfi fram skoðun á því hvernig verðmyndunin fer fram og hvort hægt sé að koma henni fyrir með skynsamlegri hætti.