132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru nokkuð augljós einkenni á þessum markaði, sérstaklega varðandi viðskipti á aflaheimildum í þorski, að það eru mjög fáir aðilar sem ráða yfir stærstum hluta af þeim heimildum sem fara á leigumarkað. Ég hygg að u.þ.b. fjögur fyrirtæki í aflamarkskerfinu séu ráðandi í framboðinu á heimildum til leigu. Sennilega bjóða þau fram langstærstan hluta þess sem selt er á milli aðila og hluti þeirra veiðiheimilda sem fer á markað er ekki nema um fjórðungur eða rúmlega það af því sem má veiða í heild. Leigumagnið af heildinni er lítið og það eru fáir aðilar sem ráða stærstum hluta þess. Þetta eru mjög alvarleg einkenni á þessum markaði, virðulegi forseti, og ég held að menn þurfi að setja reglur í þessum viðskiptum til að tryggja jafnræði á milli seljenda og kaupenda.