132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:13]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég er sannfærður um að þeir sjómenn víða um land sem horfa á þessa umræðu hrista höfuðið yfir svörum hæstv. ráðherra. Hann talar um að það þurfi að skoða þetta eins og það séu bara eðlileg viðskipti sem þarna eiga sér stað.

Við verðum að gæta að því að í þessum leiguviðskiptum fara sjö tíundu hlutar af verðmæti aflans til þeirra sem koma hvergi nærri vinnunni heldur hafa aflaheimildirnar frá okkur, þjóðinni, til umráða, en koma ekkert nærri þeirri vinnu að sækja sjóinn. Þeir sem fara í þau verk þurfa að greiða viðkomandi a.m.k. sjö tíundu hluta í leyfi fyrir að fara í vinnuna. Þetta er algjört rugl og alveg með ólíkindum ef menn ætli að halda þessu áfram.

Hvers vegna er þetta svona? Menn tala alltaf um einhverja hagræðingu. Það hefur ekki orðið nein hagræðing, alls ekki, það er langt í frá. Það er engin hagræðing að þessu. Út úr greininni hafa stundum runnið 3–4 milljarðar (Forseti hringir.) eina helgi, tugir milljarða suma mánuðina og hverjir borga (Forseti hringir.) brúsann? Það gera sjómenn landsins í leiguverði og lágu verði fyrir þann afla sem landað er.

(Forseti (ÞBack): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)