132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Leiguverð fiskveiðiheimilda.

611. mál
[13:14]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það fyrirkomulag sem er á leigu aflaheimilda á Íslandi er versta form arðráns sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að. Það er alveg með ólíkindum að við skulum láta það líðast að verið sé að mergsjúga og arðræna heiðarlega sjómenn, duglega unga menn sem vilja allt til þess vinna að koma undir sig fótunum með sínu einkaframtaki í útgerð, að þeir séu arðrændir og féflettir með jafnskipulegum hætti og gert hefur verið á Íslandi mörg undanfarin ár. Það er ríkisstjórnarflokkunum báðum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, til háborinnar skammar og verður þeim báðum ávallt til háborinnar skammar að hafa búið til þetta kerfi. Það á ekki að búa til svona óréttlæti á Íslandi í dag, það á hreinlega ekki að líðast.

Það skal verða okkar fyrsta verk í Frjálslynda flokknum þegar við komumst til valda að afnema þetta kerfi og sjá til þess að ungir, heiðarlegir og duglegir menn geti á nýjan leik komið undir sig fótunum í útgerð á Íslandi.