132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Þjónusta við börn og unglinga með geðraskanir.

482. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég ber fram fyrirspurn til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem er svohljóðandi:

1. Hvað líður athugun ráðuneytisins á tillögum sem fram koma í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar frá 31. ágúst 2004 um „skilgreiningu þriggja þjónustustiga í málefnum barna og unglinga með geðraskanir og aðgerðir til að auka samþættingu þjónustunnar“?

2. Ef nefnd hefur verið sett í málið, hverjir eiga sæti í henni, hvenær hóf hún störf og hvenær á hún að ljúka störfum?

3. Hvað líður vinnu við samþættingu á þjónustu og meðferðarúrræðum fyrir börn með geðraskanir?

Við vinnslu þessarar skýrslu kom m.a. fram að í sumum sveitarfélögum hefur verið erfið staða þar sem þörf er á að aðstoða börn með geðraskanir og aðstandendur þeirra. Yfirleitt er það fjárskortur og jafnvel úrræðaleysi sem stendur í veginum og því eðlilegt að sveitarfélögin hafi haft miklar væntingar til heilbrigðisráðuneytisins um úrlausnir í framhaldi af framtaki ráðherra með ráðningu verkefnastjóra sem skilaði af sér hinni góðu skýrslu „Samhæfing í málefnum barna og unglinga með geðraskanir“.

Væntingarnar hafa varla minnkað við frétt sem birtist á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins fyrir rúmu ári, þann 9. febrúar 2005. Þessi frétt er tilefni fyrirspurnarinnar og tel ég rétt að lesa hana hér upp, með leyfi forseta:

„Tillögur um samþættingu þjónustu við börn með geðraskanir. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur um skeið haft til umfjöllunar tillögur verkefnisstjóra um samþættingu þjónustu við börn með geðraskanir sem skilaði ráðherra skýrslu sinni í haust.

Í október 2003 tilkynnti Jón Kristjánsson, ráðherra um þá ákvörðun sína að ráða verkefnisstjóra til heilbrigðisráðuneytisins sem fengi það hlutverk að gera tillögur um samþættingu þjónustu og meðferðarúrræða á þessu sviði. Yrði vinna hans jafnframt liður í vinnu að stefnumótun fyrir málaflokkinn. Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, var ráðinn til þessa verkefnis. Hann tók til starfa í febrúar 2004 og skilaði ráðherra skýrslu með úttekt sinni og tillögum í lok ágúst.“

Áfram segir:

„Að undanförnu hafa tillögur verkefnisstjórans verið til skoðunar hjá aðstoðarmönnum ráðherra þeirra ráðuneyta sem helst koma að málaflokknum, það eru heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið.“

Frú forseti. Það ætti öllum að vera ljóst að það er nauðsynlegt að grípa snemma inn í þegar um geðraskanir barna og unglinga er að ræða og tryggja þeim greiningu og sem besta aðstoð til að gera þeim og aðstandendum þeirra lífið auðveldara. Við lestur skýrslunnar kemur í ljós að ekki er lengur jafnnauðsynlegt að fylgjast með líkamskvillum grunnskólanemenda en á móti er aukið ákall eftir þjónustu vegna hegðunar- og vanlíðunarvandamála. Jafnframt kemur í ljós að þetta er ekki í fyrsta sinn sem skilað er skýrslu um þetta mál. Það hefur vakið athygli mína hversu langan tíma hefur tekið að svara þessari fyrirspurn en ég vænti þess að það sé ekki merki um að þurft hafi að sækja hana undir stól, frú forseti.