132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Þjónusta við börn og unglinga með geðraskanir.

482. mál
[13:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvað líði athugun ráðuneytisins á tillögum sem fram komu í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar frá ágústlokum 2004 um „skilgreiningu þriggja þjónustustiga í málefnum barna og unglinga með geðraskanir og aðgerðir til að auka samþættingu þjónustunnar“.

Því er til að svara að þann 10. október 2003, á alþjóðageðheilbrigðisdaginn, tilkynnti heilbrigðisráðherra að hann hefði í hyggju að ráða verkefnisstjóra til heilbrigðisráðuneytisins til þess að gera tillögur um hvernig best væri að tryggja að börn og unglingar með geðraskanir fengju sem skilvirkasta þjónustu af hálfu þeirra sem koma að þessum málum. Áður en ráðherra tilkynnti þessa ákvörðun var haft samráð við menntamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga og var þeim gerð grein fyrir þessum áformum og ákveðið að haft yrði samráð um framvinduna.

Í ársbyrjun 2004 var verkefnisstjórinn ráðinn og skilaði hann tillögum sínum, eins og fram hefur komið, í ágúst sama ár. Tillögurnar eru settar fram sem ábendingar um ýmislegt sem betur má fara í þessu efni og um það hvernig skilgreina megi betur þau þjónustustig sem hér um ræðir. Þar sem tillögurnar taka til þriggja þjónustustiga og margra þjónustukerfa er mikilvægt að hafa samráð um umfjöllun þeirra. Ráðuneytin hafa skoðað tillögurnar, aðstoðarmenn ráðherranna hafa lagt mat á þær og nú er ætlunin að taka næstu skref í því skyni.

Önnur spurning er svohljóðandi:

„Ef nefnd hefur verið sett í málið, hverjir eiga sæti í henni, hvenær hóf hún störf og hvenær á hún að ljúka störfum?“

Því er til að svara að ekki hefur verið skipuð sérstök nefnd um þetta málefni. Hins vegar hefur verið ákveðið að fela nefnd sem hefur haft umsjón með framkvæmd stefnumótunar ríkisstjórnarinnar um málefni langveikra barna að taka þessar tillögur til skoðunar og útfæra þær nánar, m.a. kostnaðarmeta þær og vinna þær frekar þannig að taka megi afstöðu til þeirra. Þá er ætlunin að nefndin skoði hvernig hrinda mætti þeim í framkvæmd, en tillögurnar eru mjög breiðar og nokkuð almenns eðlis.

Í þessari nefnd eiga sæti Margrét Björnsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneytinu, Hallgrímur Guðmundsson frá fjármálaráðuneytinu og Þorgerður Benediktsdóttir frá félagsmálaráðuneytinu. Nefndinni verður einnig falið að eiga samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Nefndin hefur starfað ötullega að verkefni sínu hingað til og er hún því vel til þess fallin að halda á þessu máli áfram. Það fellur líka vel að upphaflegum viðfangsefnum nefndarinnar því að í henni sitja fulltrúar þeirra ráðuneyta sem hlut eiga að máli.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hvað líður vinnu við samþættingu á þjónustu og meðferðarúrræðum fyrir börn með geðraskanir?“

Eins og fram hefur komið hefur verið innt af hendi undirbúningsvinna við þessa samþættingu, en það er öllum ljóst að mikilvægt er að halda áfram og tryggja bestu mögulegu þjónustu fyrir þennan skjólstæðingahóp heilbrigðis-, félags- og menntakerfis auk sveitarfélaganna.

Ég vil einnig draga fram að nú er verið að hrinda í framkvæmd nefndaráliti varðandi geðheilbrigðismál barna og unglinga sem skilað var til heilbrigðisráðherra í nóvember sl. Hluti þeirra tillagna sem þar koma til framkvæmda munu bæta hag þeirra barna og unglinga sem hér um ræðir. Þá vil ég gera grein fyrir því að ég hef ákveðið að fá sænskan ráðgjafa, sérfróðan um geðheilbrigðismál og geðheilbrigðisþjónustu, til að skoða með okkur Íslendingum með hvaða hætti við getum eflt þjónustu við þennan tiltekna hóp. Ráðgjafinn kemur til starfa með heilbrigðisráðuneytinu um miðjan maí og bind ég miklar vonir við störf hans.

Ég hef fullan hug á að eiga gott samstarf við alla þá sem koma að þessum málum og mun leggja mitt af mörkum til þess að svo verði á næstunni. Ég tel að það mjög virðingarvert að hv. þingmaður taki upp málefni barna með geðraskanir af því að það er hópur sem ég er sammála honum um að hlúa þarf vel að.