132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Þjónusta við börn og unglinga með geðraskanir.

482. mál
[13:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum dögum áttum við ágæta utandagskrárumræðu um málefni barna með geðraskanir og það úrræðaleysi sem foreldrar og börn standa frammi fyrir varðandi þjónustu fyrir þau. Það er á svo mörgum sviðum sem efla þarf þjónustuna og samþætta hana og þá sérstaklega nærþjónustuna sem er orðið mjög brýnt að efla, bæði í heilsugæslunni og í skólunum og svo sérfræðiþjónustuna.

Ég tel að þær skýrslur sem unnar hafa verið og þær nefndir sem hafa skilað af sér tillögum í gegnum árin séu þegar orðnar það ítarlegar og með það góðar ábendingar að það þurfi í raun og veru ekki annað að en að einhenda sér í að vinna samkvæmt tillögunum og leggja fjármagn í þennan málaflokk. En það þarf að hafa gott samstarf við sveitarfélögin, (Forseti hringir.) því að töluverður kostnaður mun koma á þau líka.