132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um samninga við hjúkrunarheimili og legg fyrir hana eftirfarandi spurningar:

1. Hversu mörgum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið greiðir reksturinn á er ráðstafað af öðrum en opinberum aðilum, svo sem félagasamtökum? — En þar á ég við stuðningsfélög hinna ýmsu sjúklingahópa.

2. Telur ráðherra ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimili þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmum?

Við vitum öll hvernig ástandið er í hjúkrunarmálunum hér á landi. Það skortir verulega hjúkrunarpláss, 350 manns bíða í brýnni þörf. 90 aldraðir eru inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við óviðunandi aðstæður en búið að lækna fólkið og það bíður eftir hjúkrunarrýmum. Það er mjög dýrt.

Á sínum tíma þegar hjúkrunarheimili voru byggð voru þau mörg hver byggð upp á vegum félagasamtaka og styrktarfélaga. Félögin sem greiddu fyrir plássin í upphafi hafa síðan ráðstöfunarrétt yfir þeim enn þá áratugum síðar þó svo að ríkið hafi greitt fyrir reksturinn í áratugi. Ég spyr að þessu í ljósi þess að fjöldi aldraðra er inni á Landspítala og getur ekki útskrifast. Það er ríkinu mjög dýrt. Verið er að borga 30–50 þús. kr. fyrir hvern sjúkling á dag á Landspítalanum. Það eru hátt í 15 milljónir á mánuði sem fara bara í það að geta ekki útskrifað þessa sjúklinga. Landspítali – háskólasjúkrahús hefur forgang með sjúklinga inn á tvö hjúkrunarheimili sem eru Vífilsstaðir og Sóltún. En það dugar ekki til. Ástandið er svona þrátt fyrir það. Á sama tíma úthluta félagasamtök plássum inn á hjúkrunarheimilin.

Þess vegna spyr ég hvort hæstv. ráðherra sjái ástæðu til að taka upp samninga við þessi hjúkrunarheimili til þess að létta á Landspítalanum við að útskrifa þá sjúklinga sem þar eru og grynnka í þeim hópi fólks sem er í brýnni þörf eftir vistun. Við vitum að þegar er valið inn á hjúkrunarheimilin af Landspítalanum er farið eftir hjúkrunarþyngd og það er alveg rétt að gera það. Það á auðvitað fara eftir hjúkrunarþyngd, þeir sem eru í mestu þörfinni eiga að ganga fyrir.

En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji sig geta farið í slíkar samningaviðræður við hjúkrunarheimilin, sérstaklega í ljósi þess að ríkið hefur verið að greiða fyrir reksturinn á öllum þessum plássum í áratugi.