132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hversu mörgum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið greiðir reksturinn á sé ráðstafað af öðrum en opinberum aðilum, svo sem félagasamtökum og hins vegar hvort ég telji ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimili þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmum.

Því er til að svara að hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu eru 1.479 og eru þau öll rekin á daggjöldum utan 40 hjúkrunarrými fyrir aldraða á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Eignarhald á þeim stofnunum sem reka umrædd hjúkrunarrými er mismunandi. Aðeins tvö hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu eru alfarið í eigu ríkisins en það er Sólvangur í Hafnarfirði og Vífilsstaðir í Hafnarfirði. Þá eru rýmin 40 á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í eigu ríkisins. Að öðru leyti er eignarhald með ýmsu móti, ýmist eru heimilin í eigu félagasamtaka, einkaaðila, sveitarfélaga eða blanda af þessu. Hvað varðar ráðstöfun þá er tæpast hægt að segja að félagasamtök eða aðrir ráðstafi hjúkrunarrýmum, a.m.k. er ekki um fullan og skilyrðislausan ráðstöfunarrétt að ræða.

Eins og þingmenn margir þekkja gilda ákveðnar reglur um vistun fólks í hjúkrunarrými sem kveðið er á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um þjónustuhóp aldraða og vistunarmat aldraðra, nr. 791/2001. Hjúkrunarheimilin eiga að fara eftir þessum reglum við ráðstöfun hjúkrunarrýma og skulu þau sjá til þess að þeir gangi fyrir sem lengst hafa beðið með mjög brýna þörf samkvæmt vistunarmati. En maður spyr sig: Er þannig í reynd?

Í samningi um rekstur Sóltúns í Reykjavík er kveðið á um að Landspítali – háskólasjúkrahús eigi forgang að 90% rýma þar fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga, en hjúkrunarrými á Sóltúni eru alls 81. Sama fyrirkomulag er varðandi ráðstöfun þeirra 50 hjúkrunarrýma sem eru á Vífilsstöðum sem ríkið á en Hrafnista rekur. Þar eru níu af hverjum tíu heimilismönnum, eða 90%, vistaðir inn af öldrunardeildum Landspítala – háskólasjúkrahúsi en 10% heimilismanna eru tekin inn samkvæmt hefðbundnum inntökureglum. Það má því segja að þessum tveimur heimilum, Sóltúni og Vífilsstöðum, sé skylt samkvæmt samningi að taka 90% heimilismanna beint af spítölunum. Hin fara eftir hinum almennu reglum.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimilin þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmunum. Ef hér er átt við að taka upp samninga áþekka þeim sem ég nefndi áðan þá finnst mér koma til greina að gera það. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það, en ég verð að deila þeim hugleiðingum mínum, sem eru ofarlega í huga mínum núna, eftir að hafa reynt að kynna mér málaflokkinn eins hratt og ég hef getað upp á síðkastið. Ég hef farið um Landspítala – háskólasjúkrahús og séð að þar er hópur fólks sem liggur inni. Þetta er svokallaður fráflæðisvandi, eins og það hljómar nú illa það orð. Þetta eru veikir aldraðir sem geta samt verið á hjúkrunarheimili og ættu að vera þar í ódýrari rýmum en eru á spítalanum eins og hér hefur verið dregið fram.

Á sama tíma hef ég skoðað rannsóknir sem gerðar voru í Hafnarfirði í tengslum við umræðuna sem varð um Sólvang. Þar kom í ljós að meira en helmingur þeirra sem voru á biðlista svaraði því til í rannsókn eða könnun að hann gæti verið heima ef hann fengi meiri heimahjúkrun og meiri þjónustu frá félagsþjónustu sveitarfélagsins. Helmingurinn á biðlistanum þurfti eiginlega ekki að vera þar heldur gat verið heima. Í sömu könnun voru einnig spurðir þeir sem voru inniliggjandi á Sólvangi. Meira en helmingur þeirra sagði líka að þeir hefðu getað verið lengur heima ef þeir hefðu fengið meiri heimahjúkrun og meiri félagsþjónustu frá sveitarfélaginu.

Maður spyr sig að því hvað hér sé uppi. Er verið að taka inn að hluta til sjúklinga sem ekki þurfa sjúkrahúsvist? Veitum við of litla þjónustu heima með heimahjúkrun og félagsþjónustu sveitarfélaga? Eru sjúklingar sem ættu að vera á hjúkrunarheimili í of dýrum rýmum inni á spítala? Erum við búin að stofnanavæða of mikið? Erum við með hóp fólks í of dýrum úrræðum miðað við þau úrræði sem viðkomandi gæti verið í og fengið þar fullkomlega viðeigandi þjónustu?

Ég tel að sú spurning sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bar hér upp sé mjög athyglisverð. Ég er ekki tilbúin til að kveða upp úr með það hvort við breytum inntökureglunum. En það er mjög umhugsunarvert að sjá þessa dreifingu á eldri borgurum og að velta því fyrir sér hvort við séum á réttri leið í þessum málum.