132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:44]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og svar ráðherrans. Ég tel reyndar að hæstv. ráðherra fari ákaflega vel af stað í sínu mjög erfiða ráðuneyti sem er með síbreytilegar þarfir.

Staðreyndin er sú að þjóðin er að eldast og þess vegna verðum við að búa þannig í haginn að við getum mætt aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum. Við þurfum nauðsynlega að undirbúa þjóðfélagið undir þessar miklu breytingar. Stefnan hefur verið sú að aldraðir geti verið sem allra lengst heima. Þess eru dæmi á dvalarheimilum, t.d. eins og á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli, að þar hefur hjúkrunarrýmum verið fjölgað, m.a. vegna þess að ef ekki eru einnig hjúkrunarrými á dvalarheimilunum þarf oft að aðskilja hjón ef annað verður veikt en hitt er heilbrigðara. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum og veit að hún mun gera sitt allra besta til að sinna þessum þörfum.