132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samningar við hjúkrunarheimili.

483. mál
[13:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og eins ráðherra fyrir svörin. Ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra hafi fullan skilning á því í hverju vandinn liggur og hvernig hægt væri að byggja upp mannúðlegri, betri og ódýrari þjónustu. Nú er bara að sjá hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi afl, dug og kraft sem ráðherra Framsóknarflokks í núverandi ríkisstjórn til þess að fylgja hugmyndunum eftir. Það þýðir ekki að tala stöðugt um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við höfum ekkert að gera við fleiri hjúkrunarheimili. Það eru laus pláss á hjúkrunarheimilunum til að taka við sjúklingunum á Landspítalanum, en það verður að vera hægt að reka hjúkrunarheimilin, það þarf að vera hægt að greiða fólki laun til að reka þau. Sveitarfélögin þurfa fjármagn til að sinna sívaxandi hópi aldraðra inni á heimilunum, ekki með vitjun og þrifum einu sinni í viku heldur þjónustu þannig að aldraðir geti verið heima.