132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Slys á börnum.

504. mál
[13:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um slys á börnum. Fyrirspurnin er nokkuð sértæk vegna þess að ég spyr um fjölda slysa á börnum við leik á snjóþotu eða á vélknúnum sleðum.

Samkvæmt vef landlæknisembættisins verða hér á landi um 5–6 þúsund slys á ári og þar af eru börn 14 ára og yngri talsvert stór hluti. Frá árinu 2002 hefur góð samræmd slysaskráning verið í uppbyggingu en samkvæmt upplýsingum á vef landlæknisembættisins og slysaskráningar er hún ekki komin í fullkomið horf, þ.e. það vantar enn þá töluverðar upplýsingar frá mörgum aðilum, sérstaklega landsbyggðinni, í hana auk þess sem þar er eingöngu byggt á grófu yfirheiti á slysaflokkum.

Verulega gott eftirlit er með börnum í skipulegu tómstundastarfi eða íþróttum en hins vegar eru börn ekki undir eftirliti þegar þau eru ein úti að leika sér. Það er auðvitað gott að börn séu talsvert úti að leika sér en engu að síður þarf að fræða þau og kynna fyrir þeim hvernig best sé að leika sér án þess að slys verði.

Ég tel mikilvægt að við höfum góðar og ítarlegar upplýsingar um slys og mismunandi slysaflokka barna til að forvarnir gegn þeim geti verið sem öflugastar. Þegar kemur að leik á snjóþotu þá vitum við að þá fáu daga sem börn hafa snjó til þess er kannski kappið meira en forsjáin að hlaupa út og leika sér og því verða slysin. Því miður hefur maður heyrt af alvarlegum slysum eins og höfuðkúpubrotum við slíkan leik. Því þykir mér áhugavert að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra um tölur yfir þau slys svo við höfum einhverja mynd af því. Auk þess þykir mér áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra hvort í bígerð sé að fara af stað með einhvers konar forvarnaátak til að koma í veg fyrir slík slys vegna þess að við höfum séð að forvarnir gegn t.d. slysum við hjólreiðar, þ.e. hvatning til barna um að vera með hjálma við hjólreiðar hafa skilað sér verulega vel og gengið vel. Það er því spurning hvort ekki þyrfti að taka upp slíkt líka varðandi fleiri leiki, t.d. leik á tækjum eins og sleðum.