132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Slys á börnum.

504. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En mér finnst töluvert alvarlegt mál ef við höfum ekki samræmda slysaskráningu fyrir landið allt heldur séum við eingöngu að fá upplýsingar frá höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðina virðist vanta algerlega inn í þetta og þar eru snjóþungu svæðin. Á höfuðborgarsvæðinu eru færri dagar til leikja á snjóþotum.

Ég vil því skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að drífa í að koma þessari samræmdu slysaskráningu, sérstaklega hvað börnin varðar, í samt lag og koma henni í það lag að hægt sé að nálgast upplýsingar um landið allt. Ekki bara höfuðborgarsvæðið. Það er ekki nægjanlegt.

Herra forseti. Þá tel ég, og það kemur líka fram á vefsíðu landlæknisembættisins um slys, að góðar upplýsingar úr slíkri sjúkraskrá séu forsenda þess að hægt sé að ná góðum árangri í forvörnum. Hún sé forsenda þess. Á árinu 2004 voru skráð hvorki fleiri né færri en 7.000 slys á börnum á höfuðborgarsvæðinu. 7.000 slys sem skráð eru hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þetta er mjög mikill fjöldi og þar af voru tæplega 4.200 heima- og frítímaslys. Þetta er augljóslega mál sem við verðum að skoða.

Þarna er landsbyggðin ekki inn í. Þetta er eingöngu Landspítali – háskólasjúkrahús. Augljóst er að við þurfum að taka okkur á og ég vil hvetja nýjan heilbrigðisráðherra til að gera skurk í þessum efnum. Láta í það fjármagn svo skráning sé skipulega samræmd vegna þess að öðruvísi verða (Forseti hringir.) forvarnirnar ekki öflugar og auk þess tel ég að grípa eigi til aðgerða og (Forseti hringir.) hvetja til hjálmanotkunar við allan búnað við frístundir. Ekki bara hjólreiðar.