132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

MFS-einingin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

563. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hreyfi við máli sem snertir afar mikilvæga þjónustu í heilbrigðiskerfi okkar. Um er að ræða svokallaða þjónustu MFS-eininga sem útleggst: Meðganga, fæðing og sængurlega innan Landspítalans. Þessi þjónusta hefur verið framúrskarandi en ég þekki hana á eigin skinni og hef notið hennar með mín eigin börn.

Hugsunin á bak við MFS er m.a. að verðandi foreldrar fái samfleytta þjónustu sömu ljósmæðra í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu, ásamt því að veita verðandi foreldrum persónulega þjónustu og fræðslu þar sem leitast er við að mæta þörfum og óskum hvers og eins.

Skal stefnt að því að fjölskyldan sameinist sem fyrst eftir fæðinguna og styrki þannig tengslamyndun. MFS-ljósmæður hafa því annast mæðraeftirlit frá upphafi, foreldrafræðslu og fæðingarhjálp. Konur sem njóta MFS-þjónustunnar hafa átt kost á 6 til 24 klukkustunda sængurlegu í Hreiðrinu svokallaða, en eftir það fá konurnar þjónustu sömu MFS-ljósmæðra heim eftir þörfum.

Herra forseti. Nú er búið að loka þessari frábæru þjónustu og nú þegar er hætt að taka við nýjum konum í þá þjónustu. Síðustu konurnar sem munu fæða innan þessa kerfis fæða í sumar. Við þetta hefur þjónustu við fjölskyldur hrakað, m.a. vegna þess að nú hafa konur ekki rétt á að hafa sömu ljósmóðurina í öllu ferlinu, líka í mæðraverndinni.

Með umræddri lokun hefur sömuleiðis verið dregið úr valkostum fyrir fjölskyldur. Núna mun mæðraverndin vera að öllu leyti innan heilsugæslunnar en mæðravernd innan MFS var eina mæðraverndin sem var eftir hjá Landspítalanum. Margir eru ósáttir við þetta og þar á meðal foreldrar og ljósmæður. Mikil ánægja hefur verið með þjónustu MFS-einingar, og því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra nokkurra spurninga.

Er ráðherra tilbúinn að tryggja áframhaldandi þjónustu svokallaðrar MFS-einingar innan Landspítala – háskólasjúkrahúss?

Ef ekki, verður þjónustan og núverandi frelsi einstaklinga til að velja um mismunandi þjónustu tryggt annars staðar og þá með hvaða hætti?

Hvernig verður sú aðstaða nýtt sem MFS-einingin hefur notið verði þjónustan lögð niður á Landspítalanum?

Hve margar konur hafa valið þjónustu MFS-einingarinnar á undanförnum árum og hversu hátt hlutfall er það af heildarfjölda kvenna sem eignast hafa börn á spítalanum?

Hvað kostar þjónusta MFS-einingarinnar í samanburði við aðra þjónustu Landspítalans sem varðar meðgöngu, fæðingu og sængurlegu?