132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

MFS-einingin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

563. mál
[14:15]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það veldur mér töluverðum vonbrigðum að heyra að hæstv. ráðherra ætli ekki að beita sér fyrir því að opna MFS-eininguna aftur vegna þess að ég tel að þar sé verið að skerða enn frekar valfrelsi kvenna sem eru að fara að fæða börn til þess með hvaða hætti og við hvaða aðstæður þær kjósa að fæða börn sín.

Mér finnst því miður vera tilhneiging og hafa verið tilhneiging á undanförnum árum, bæði eftir lokun Fæðingarheimilisins og síðan núna, að spítalavæða fæðingar. Það finnst mér uggvænleg þróun vegna þess að eins og komið var hér inn á eru flestar fæðingar eðlilegar og ganga vel og mér finnst við ekki eiga almennt að spítalavæða fæðingar. Konur verða að hafa valkosti, eða foreldrar vegna þess að þeir taka nú þátt í þessu saman, það verða að vera fjölbreyttir möguleikar í tengslum við fæðingar og aðstæður.

En þessi spítalavæðing finnst mér varhugaverð og ég tel að við verðum að fara að leita (Forseti hringir.) annarra leiða.