132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

MFS-einingin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

563. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svör hennar og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. En ég vil lýsa gríðarlegri óánægju og vonbrigðum með svar hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. ráðherra viðurkennir að hér sé um að ræða mikilvæga þjónustu sem hafi verið bæði framúrskarandi og góð. En af hverju er þá verið að breyta því sem vel er gert og mjög mikil ánægja er með? Það er alveg ljóst að það er verið að skerða þjónustu og það er verið að skerða valfrelsi fjölskyldna. Ég skil ekki hvernig hæstv. ráðherra getur komið hér fram og sagt að eftir þessa breytingu muni konur og fjölskyldur hafa meira val en áður. Meðan MFS var við lýði gat fólk leitað til heilsugæslunnar. Nú á að setja alla í sama mót hvað það varðar. Það er skerðing á valkostum. Það er búið að gera nóg af því í þessum málaflokki.

Það er ótrúlega gott að geta notið aðstoðar sömu ljósmóður í öllu ferlinu, líka eftir fæðinguna. Það mun breytast núna. Það var einn af stærstu kostum MFS-einingarinnar. Það var einn kjarninn í þeirri hugmyndafræði sem ljósurnar í MFS tefldu fram. Það er líka komið fram að fólk er tiltölulega ósátt við þessa breytingu.

Það er síðan allt önnur spurning, að auka sambærilega aðstoð og finna má í Hreiðrinu. Ég get alveg tekið undir að við eigum að gefa fleiri konum og fjölskyldum kost á að fæða í Hreiðrinu og njóta þeirrar aðstöðu. Það á að vera markmið okkar allra.

En það gengur ekki, að mínu mati, að leggja niður þjónustu sem allir eru ánægðir með því ekki eru það kostnaðarrök sem kalla á það, þar sem ráðherrann staðfesti við þessa umræðu að óljóst sé hvað kostnaður varðandi MFS-eininguna sé mikill. Það virðast því ekki vera kostnaðarleg rök sem kalla á þetta.

Þannig að eftir stendur að þjónustan versnar og valfrelsi er skert. Ég skora á hæstv. ráðherra að sýna djörfung og dugnað í þessu máli og koma þessari góðu þjónustu aftur á koppinn. Fólk var ánægt með hana og þetta var skynsamleg leið til að tryggja nægjanlegt valfrelsi í málaflokki sem hefur þurft að þola allt of mikinn skort og (Forseti hringir.) skerðingu á valfrelsi hingað til.