132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Gjaldtaka á Landspítala — háskólasjúkrahúsi.

643. mál
[14:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með hæstv. ráðherra. Hann ætlar ekki að taka á þessu. Það verður að ríkja jöfnuður í velferðarkerfinu og í gjaldtökunni. Vissulega á sjúkrahúsvist að vera ókeypis. Það á ekki að íþyngja veiku fólki með gjaldtöku. Það borgar skatta meðan það er heilbrigt en þegar það er orðið veikt þá kemur velferðarkerfið til móts við það og léttir undir. Það er óeðlilega mikill munur á sjúklingi sem lendir inni á legudeild og borgar ekkert og sjúklingi sem er á göngudeild og borgar um 100 þús. kr. — öryrki sem borgar lægra gjald og er með afsláttarkort. Þetta gengur ekki. Við verðum að skoða þennan ójöfnuð í kerfinu. Það þarf að skoða þessa gjaldtöku alveg eins og aðra gjaldtöku í sjúkratryggingunum. Sérfræðingar benda á að þarna sé orðinn óeðlilega mikill munur. Hér er bara talandi dæmi um að þetta gengur ekki svona.

Hæstv. ráðherra bendir á að í almannatryggingalögunum er heimild til að endurgreiða mikinn sjúkrahúss- eða heilbrigðiskostnað en það er mjög tekjutengt og það er tengt við allar tekjur fjölskyldunnar, líka makans. Það er mjög erfitt þegar aðalfyrirvinna fjölskyldu verður veik og frá störfum og maki þarf kannski að leggja á sig viðbótarvinnu til þess að sjá fjölskyldunni farborða að þá eru þær tekjur teknar til viðmiðunar þegar á að endurgreiða. Oftar en ekki er ekki endurgreitt vegna þess að tekjutengingin er svo mikil.

Það verður að taka á þessum hlutum og ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þetta betur og fara í þessa vinnu. Það er ekki hægt að láta þetta viðgangast. Þarna er ójöfnuðurinn orðinn allt of mikill í kerfinu. Það verður að gæta réttlætis og jafnaðar í velferðarkerfinu.