132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Gjaldtaka á Landspítala — háskólasjúkrahúsi.

643. mál
[14:34]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Reynt er að koma til móts við þá sem verða fyrir miklum útgjöldum. (Gripið fram í: Allt of lítið.) Hið almenna er að afsláttarskírteinin duga fyrir mjög marga. Ég geri mér grein fyrir því að þegar upphæðirnar verða svona háar eru afsláttarskírteinin hlutfallslega lítill hluti af heildarupphæðinni. Það byrjar að tikka inn við 18 þús. kr., sem dugar langflestum, en þegar upphæðirnar eru orðnar mjög háar er það hlutfallslega miklu lægri hluti af heildarútgjöldum viðkomandi.

Þá kemur hinn möguleikinn til, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, að hægt er að endurgreiða útgjöld vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar ef útgjöldin teljast umtalsverð miðað við tekjur fjölskyldunnar, þá fer það að koma til skoðunar. Ég tel því eðlilegt að látið verði reyna á þá leið í þessum tilvikum, ég bendi á að það eru þarna tvær leiðir. Líklega duga afsláttarskírteinin ekki eins vel fyrir fólk sem er með svona háar upphæðir og fyrir aðra. En þá ætti líka að koma til hinnar reglunnar þar sem hægt er að aðstoða ef útgjöldin eru að verða umtalsverð miðað við tekjur fjölskyldunnar.