132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattkerfið og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum.

515. mál
[14:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt alveg hárrétt hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að nýsköpunarfyrirtækjum dugir ekki bara hið almenna umhverfi og orsakirnar eru augljósar eins og kom fram hjá henni, þetta tekur langan tíma. Það væri kannski rétt að bæta einu atriði við líka sem er í hinu almenna umhverfi, það er tekjuskattur einstaklinga, að það stig sem hann er á hérna miðað við nágrannalönd okkar gerir það að verkum að fyrirtæki hér eru vel samkeppnisfær um að fá til sín sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum.

Ég verð hins vegar að segja að miðað við þann áhuga sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sýnir þessu máli þá virðist ekki koma fram í máli hans — hann kannski veit betur — hvað ég hef verið að leggja áherslu á þessari umræðu. Það sem bæði ég og ríkisstjórnin höfum verið að leggja áherslu á að undanförnu, bæði sem fjármálaráðherra og fyrr sem sjávarútvegsráðherra, er styrkjaþátturinn í þessu sem vissulega er ívilnandi aðgerð fyrir fyrirtæki sem þessi.

Það er þá fyrst rétt að nefna Vísinda- og tækniráð, nýendurskipulagt og með auknum fjármunum til rannsóknarstarfseminnar, og það er Tækniþróunarsjóðurinn sem var hluti af þeirri endurskipulagningu, sem var nýr sjóður, og svo er það AVS verkefnið sem komið var á fót í sjávarútvegsráðuneytinu í minni tíð þar og síðast en ekki síst aukið fjármagn til Nýsköpunarsjóðs. Þessir þrír sjóðir sem ég nefndi vinna allir á forsendum samkeppni þannig að þau verkefni sem sótt er um fé til í þá eru metin á faglegum grundvelli og niðurstaðan fæst þar. Ég hef talið að þetta væri hin rétta leið til að fara en hins vegar vegna þess að mikill áhugi er á skattahliðinni hef ég ákveðið að skoða hana líka, (Forseti hringir.) herra forseti, þannig að hægt sé að vega og meta og bera saman þessar tvær leiðir áður en við tökum ákvarðanir um frekari ívilnanir.