132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði.

559. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú eru komin hátt í tvö ár síðan bankar og sparisjóðir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð um veitingu íbúðalána. Síðan þá hafa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja kvartað undan því að samkeppnisstaða þeirra, banka og sparisjóða gagnvart Íbúðalánasjóði, sé ójöfn. Þar er nefnt til sögunnar t.d. að Íbúðalánasjóður njóti ríkisábyrgðar en þurfi ekkert að greiða fyrir hana. Líka er nefnt að kröfur um eiginfjárhlutfall séu mun vægari gagnvart sjóðnum en bönkunum og sömuleiðis er rætt um að sjóðurinn sé undanþeginn því að greiða tekjuskatt í ríkissjóð svo eitthvað sé nefnt.

Það sem mér finnst þó meira um vert og mikilvægara og meira áhyggjuefni, kemur fram í ágætri grein, Úrval á íbúðalánamarkaði, sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 16. febrúar sl. og er í raun fréttaskýring og úttekt á íbúðalánamarkaðnum og er tekin saman af Grétari Júníusi Guðmundssyni. Greinin er um margt fróðleg, þar kemur m.a. fram að ekki eingöngu sé samkeppnisstaða banka annars vegar og Íbúðalánasjóðs hins vegar ójöfn, heldur sé lántakendum mismunað eftir því hvar þeir taka lánin. Í greininni kemur fram og er bent á að lántakendum sé mismunað samkvæmt skattalögum eftir því hvar þeir taka lán til meiri háttar endurbóta á íbúðarhúsnæði. Er þar tiltekin sérstaklega 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir að vaxtagjöld myndi rétt til vaxtabóta þegar um er að ræða lán frá Íbúðalánasjóði sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á húsnæði til eigin nota.

Virðulegi forseti. Ég legg því fram hér fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra, sem hljóðar svo:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á 68. gr laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að lántakendur hjá öllum lánastofnunum hafi sama rétt til vaxtabóta vegna lána sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota?

Eins og fram kom í upphafi máls míns er ekki langt síðan þessi ágæta samkeppni um lántakendur hófst og því geri ég ráð fyrir og vænti þess að hér sé um einhvers konar mistök að ræða, þ.e. að þetta sé þáttur sem ríkisvaldið eigi eftir að taka á og vænti þess að heyra þau svör hér, vegna þess að ef ekki þá er auðvitað óþolandi ef lántakendum er mismunað með þessum hætti í gegnum vaxtabótakerfið.