132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Skattlagning styrkja úr sjúkra- og styrktarsjóðum.

644. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram til fjármálaráðherra er nýlegt viðtal við Árna Heimi Jónsson menntaskólakennara sem greindist með illkynjað krabbamein en hann hefur barist við þennan sjúkdóm í langan tíma. Þessi einstaklingur hefur mótmælt því að lífsnauðsynleg læknishjálp sé skattstofn fyrir ríkið og margir taka undir þessi mótmæli og fjölda þingmanna misbýður hreinlega þessi skattlagning.

Fram kom í viðtalinu við Árna að í fyrra greiddi hann að jafnaði 10 þús. kr. í komu- og rannsóknargjöld á mánuði. Hann sótti um styrk í sjúkrasjóð Kennarasambandsins og fékk 53 þús. kr. í styrk en þurfti að greiða 36% í staðgreiðsluskatt af fjárhæðinni. Þetta er auðvitað fráleit skattlagning, virðulegi forseti, ekki síst í ljósi þess hve sjúkra- og styrktarsjóðir verkalýðshreyfingarinnar spara samfélaginu mikið með slíkum styrkjum sem nýtast vel sem forvarnir og einnig vegna endurhæfingar sjúkra.

Nú er það svo eftir því sem fram hefur komið að þessir styrkir hafa ekki alltaf verið skattlagðir og var endurgreiðsla á sjúkra- og endurhæfingarkostnaði almennt skattfrjáls allt fram til ársins 2002. En samkvæmt því sem fram kom í Morgunblaðinu nýlega hefur orðið ákveðin stefnubreyting hjá skattyfirvöldum og eins og það var orðað fóru einstaka starfsmenn hjá Skattstofunni að leggja á styrkinn skatt.

Í Morgunblaðinu kom orðrétt fram, með leyfi forseta:

„Árið 2004 gaf ríkisskattstjóri hins vegar út ákvarðandi bréf um að fyrrgreindir styrkir skyldu vera staðgreiðsluskattskyldir og á síðasta ári kom úrskurður frá yfirskattanefnd sem staðfesti þá túlkun ríkisskattstjóra á skattalögum.“

Það er því ljóst, virðulegi forseti, að það vaknar sú spurning hvort þessi skattlagning hafi yfirleitt lagastoð. Samkvæmt því sem fram kom í fréttinni hafa forráðamenn sjúkrasjóðanna mótmælt henni harðlega við bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra en án árangurs. Því er eðlilegt, virðulegi forseti, að nú sé spurt:

1. Hversu miklar skatttekjur hafði ríkissjóður af framlögum og styrkjum úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaganna á árunum 2004 og 2005?

2. Telur ráðherra að skattlagning sjúkrastyrkja hafi lagastoð?

3. Hvaða stefnubreyting varð á árinu 2002 þegar farið var að leggja skatt á sjúkrastyrki án þess að til lagabreytinga hafi komið?

4. Telur ráðherra skattlagninguna eðlilega og ef svo er, með hvaða rökum?

5. Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingu á þessari skattlagningu? Og það er kannski mikilvægasta spurningin.

Vonandi hefur þessi umræða sem Árni Heimir Jónsson setti af stað orðið til þess að það hafi orðið viðhorfsbreyting í fjármálaráðuneytinu og við fáum að heyra hér svör við því að ráðherra muni endurskoða þessa óréttlátu skattlagningu á sjúklinga.