132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar í ársreikningum um lán til stjórnenda fyrirtækja.

663. mál
[15:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Baugsmálið svokallaða er eitthvert umdeildasta mál sem hefur komið fyrir dómstóla landsins á síðari tímum. Þar hefur nú fallið dómur í héraðsdómi sem hv. þingmaður vísar til. Því máli hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Endanlegur úrskurður af hálfu dómsvaldsins liggur því ekki fyrir. Ég get því ekki litið svo á að það ríki einhver réttaróvissa enn sem komið er eins og hv. þingmaður vísar til.

Íslensk stjórnskipan byggist auðvitað á þrískiptingu ríkisvaldsins. Það er ástæðulaust að fara með langt mál um það hér í þingsölum. Miðað við hvernig umræðan hefur verið um þetta mál, hvernig hún hefur þróast og hvað fram hefur komið, reyndar bæði utan og innan þingsalar, teldi ég afar óvarlegt af hálfu fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra að gefa út skoðanir á úrskurði héraðsdóms en það er raunverulega það sem hv. þingmaður er að biðja um. Það væri hægt að túlka sem íhlutun hvað varðar dómsvaldið og ég held að það væri mjög óskynsamlegt í stöðunni eins og hún er nú.

Með því ætla ég hvorki fyrir mína hönd né annarra að afsala mér málfrelsi hvað varðar dómsniðurstöður yfirleitt og þá kannski sérstaklega þær er varða pólitísk umfjöllunarefni en það á alls ekki við í þessu tilfelli. Baugsmálið er að mínu mati á engan hátt pólitískt og því væri rangt af mér að blanda mér inn í það mál á þann hátt sem hv. þingmaður biður um.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég er ákaflega hissa á hv. þingmanni, eins þingreyndur og hann er, að reyna að draga málið inn í þingsali á þennan hátt. Ég held að það sé algerlega ótímabært að það sé gert. Hér er um að ræða mál sem hefur verið áfrýjað og ég sé ekki neitt sem kallar eða knýr á um að ráðuneytið eða fjármálaráðherra úttali sig um það á þessu stigi. Þvert á móti tel ég að það væri afar óráðlegt miðað við hvernig þessum málum er háttað þessa dagana.