132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar í ársreikningum um lán til stjórnenda fyrirtækja.

663. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa furðu minni á þessu svari hæstv. ráðherra. Hér er ráðherrann hreinlega að koma sér hjá því að svara eðlilegum spurningum. Þær spurningar sem hér eru lagðar fram hafa ekkert með það að gera hvort málið er enn fyrir dómstólum eða ekki.

Ef ráðherra lítur til þeirra spurninga sem ég er að spyrja um þá er ég að spyrja um lögfræðilegt atriði, hvort samræma þurfi lög um hlutafélög, skattalög og lög um ársreikninga. Niðurstaða héraðsdóms var sú að óformlegar lánveitingar þyrfti ekki að skrá í ársreikninga og sérfræðingar hafa haldið því fram að það sé eðlilegt að í ársreikningum séu öll lán skráð, hvort sem þau eru formleg eða óformleg.

Ég kalla það réttaróvissu þegar það liggur fyrir að sérfræðingar hafa tjáð sig um að það beri að skrá öll lán fyrirtækja í ársreikninga, hvort sem þau eru formleg eða óformleg, og er það ekki það eðlilega?

Hver er t.d. skoðun ráðherra á því? Telur hann að öll lán, alveg burt séð frá þessum dómi, eigi að vera skráð í ársreikninga hvort sem þau eru formleg eða óformleg? Það væri mjög gott að frá fram svar hæstv. ráðherra við því. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að ráðherra geti svarað því þó málið sé fyrir dómstólunum. Það er bara verið að koma sér með penum hætti hjá því að svara hér eðlilegum spurningum.

Það er líka spurt hvort tilskipun Evrópusambandsins um ársreikninga hafi ekki verið innleidd með réttum hætti, þar sem um er að ræða innleiðingu á félagarétti tilskipunar sambandsins á framsetningu ársreikninga. Mér finnst að ráðherrann geti nú svarað því, alveg burt séð frá þessu dómsmáli, hvort hann telji að þessi tilskipun Evrópusambandsins hafi verið innleidd með réttum hætti. Það er engin íhlutun í störf dómskerfisins eða (Forseti hringir.) þau mál sem þar er verið að fjalla um. Þess vegna lýsi ég furðu minni á því ef ráðherrann ætlar engu að svara í þessu efni.