132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:42]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skilaboð ríkisstjórnarinnar til okkar sem erum öryrkjar eru alveg kýrskýr: Ekki vinna, ekki spara fé og giftið ykkur alls ekki, því að þá verða bæturnar skertar um helming á móti. Þó er það einmitt þetta sem er okkur kannski jafnvel meira en öðrum mikilvægt, að vinna til að hjálpa okkur við að halda heilsu, að spara því að það er nú jafnan efnaminnsta fólkinu mikilvægast og að treysta fjölskylduböndin.

Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að réttlæta ekki flækjurnar í almannatryggingakerfinu á fyrstu dögum sínum í embætti, heldur leita leiða til þess að draga úr þeim og raunar að afnema tekjutengingu við tekjur maka, því hvaða hugsun er það að þeir sem búa við örorku eigi að treysta á maka sinn um framfærslu ævina alla? Hugsum við þannig í atvinnuleysistryggingakerfinu? Nei. Hugsum við þannig um námsmenn? Nei. Af því að atvinnulausir og námsmenn eru venjulegt fólk og við teljum að venjulegt fólk eigi sem einstaklingar hver og einn rétt til fullrar framfærslu.

Við teljum eðlilegt að öryrkjar eigi að treysta ævina alla á framfærslu maka síns að verulegu leyti og skömmtum þeim aðeins 45 þús. kr. á mánuði. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að afnema það. Ég held að það sé eitthvert mikilvægasta jafnréttismálið sem hægt er að taka á á Íslandi í dag því að auðvitað bitnar þetta fyrst og fremst á fötluðum konum.

Lengi getur vont versnað og þær endurkröfur upp á tæpa 2 milljarða á lífeyrisþega (Forseti hringir.) sem gerðar hafa verið núna á síðustu mánuðum sýna auðvitað að framkvæmdin á þessu flækjufótarkerfi er algerlega óviðunandi og ráðherra (Forseti hringir.) verður að leita leiða til að einfalda það.