132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:44]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa tekið upp þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Vandinn er auðvitað nokkuð margþættur eins og hér hefur komið fram. Útreikningurinn á bótum hjá Tryggingastofnun hefur verið með nokkuð miklum frávikum frá því sem reglur kveða á um. Stærstur hlutinn virðist vera vegna ónákvæmni í áætlunargerð bótaþega í upphafi hvers árs um tekjur sínar. Bæði hefur verið þar um ofáætlun að ræða, sem leitt hefur til vangreiddra bóta til bótaþega, og hins vegar vanáætlun á tekjum sem hefur þá leitt til ofgreiðslu bóta. Margt kemur þar til en það hefur verið sérstaklega nefnt vegna vanáætlunar á tekjum að mjög erfitt hafi verið fyrir bótaþega að meta auknar fjármagnstekjur í upphafi hvers árs eins og ráðherra nefndi.

Við hljótum að horfa vonaraugum á nefnd Ásmundar Stefánssonar sem mun væntanlega skila í haust og koma með nokkrar tillögur til úrbóta á þessu kerfi, eins og kom fram í máli ráðherra. Við verðum líka að horfa til þess þegar er farið í innheimtu á ofgreiddum bótum að það verði gert með mannúðlegum hætti. Við reynum að nefna það svo og ráðherra hefur auðvitað beitt sér fyrir því en með öllum ráðum verður að bæta upplýsingar Tryggingastofnunar ríkisins til bótaþega og flýta svörum til þeirra sem eiga við núverandi vanda að stríða.

Fyrst og fremst, hæstv. forseti, þarf að bæta samtímaeftirlit, Tryggingastofnun þarf að vera í beinni tengingu við staðgreiðsluskrá og það þarf að auka kynningu til lífeyrisþega og auka samstarf við fjármálastofnanir þar sem fjármagntekjurnar koma til.

Ég vil nefna það hér að það hefur tekist nokkuð vel til hjá (Forseti hringir.) Lánasjóði íslenskra námsmanna við tekjuáætlanir (Forseti hringir.) og hugsanlega er hægt að líta til reynslu þeirra.