132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að taka upp þetta mál hér á hv. Alþingi vegna þess að þetta beinir sjónum okkar að því hvað almannabótakerfið er orðið flókið sem birtist í þeirri mynd að tölvukerfi og mannafli Tryggingastofnunar ríkisins ræður ekki orðið við að halda utan um bótaflokkana, greiðslur samkvæmt þeim miðað við skerðingarákvæði, og þá hlýtur eitthvað mikið að vera að. Tryggingastofnun ríkisins hefur bent á það mörg undanfarin ár að til þess að greiða réttar bætur þurfi stofnunin að búa yfir góðum tölvubúnaði og hafa mannafla til að sinna því. Við því hefur verið orðið að einhverju leyti en greinilega ekki nóg.

Hæstv. forseti. Vandann má að miklu leyti rekja til þess að bótaflokkarnir eru of margir, grunnlífeyririnn er of lágur. Samkvæmt hugmyndafræði núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á að tryggja bætur til þeirra sem á þurfa að halda, þ.e. að grunnlífeyririnn er lágur og síðan byggðir mismunandi bótaflokkar þar ofan á og allir þessir bótaflokkar skerðast svo vegna tekna og tekna maka. Þetta er orðið mannskemmandi, ég tel að það sé brot á mannréttindum að tekjutengja lífeyrisgreiðslur einstaklinga, örorkuþega og ellilífeyrisþega við tekjur maka. Það er nær að greiða hærri lífeyri, gera fólki kleift að vinna og taka síðan tekjur umfram skattleysismörk í gegnum skattkerfið í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) byggja þetta upp eins og gert er í dag.