132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:51]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér alltaf tilefni til þess að ræða almannatryggingakerfið og kjör eldri borgara og öryrkja. Þessi umræða hefur hins vegar verið heldur óljós enda fór málshefjandi út um víðan völl í ræðu sinni hér áðan þannig að óljósar spurningar og óljós málatilbúnaður kallar auðvitað á óljós svör.

Samandregið, hæstv. forseti, sýnist mér að hv. þingmaður hafi í fyrsta lagi verið að leita álits hæstv. ráðherra á tillögum hv. þingmanna Frjálslynda flokksins um 50 þús. kr. frítekjumark áður en til bótaskerðinga kæmi. Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hvort ekki væri betra að einfalda lög og reglur í stað þess að fjölga starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins og í þriðja lagi vildi hv. þingmaður fá að vita hvað liði störfum samstarfsnefndar um réttindi og kjör eldri borgara.

Í fyrsta lagi, hæstv. forseti, held ég að það sé rétt eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hér áðan að við bíðum niðurstöðu þeirrar nefndar sem nú er að störfum áður en gengið verður til frekari uppstokkunar í almannatryggingakerfinu. Það má vel vera að tillögur Frjálslynda flokksins komi þar til skoðunar eins og hverjar aðrar.

Í öðru lagi, hæstv. forseti, held ég að við séum öll sammála um að yfirleitt sé til bóta að einfalda lög og reglur.

Í þriðja lagi, sem er auðvitað aðalatriðið í þessu máli, verða menn að viðhalda þeirri samstöðu sem hér hefur ríkt um samhjálp og samtryggingu sem hefur komið svo vel fram í almannatryggingakerfi okkar. Það er fyrst og síðast það sem við verðum öll að horfa til og það er til mikils unnið ef áframhaldandi samstaða næst um þau efni.