132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:55]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Forseti. Bótakerfi almannatrygginga er orðið svo flókið í meðförum þessarar ríkisstjórnar sem stöðugt er að lappa upp á löngu úrelt kerfi og lagasetningu að þeir sem vinna við það eru hættir að ráða við þann flækjufót. Slæmt var það en mikið hefur það versnað. Það er enginn vilji til þess að taka strax á augljósum vanköntum kerfisins. Ekki er verið að endurskoða lífeyristryggingarnar í heild, hvað þá almannatryggingarnar. Heilbrigðisráðherra vill ekki taka lögin um málefni aldraðra til endurskoðunar, það kom fram hér í fyrirspurnatíma á dögunum. Allt á að bíða nefndar forsætisráðherra undir forustu Ásmundar Stefánssonar, sem virðist ekki vera langt komin í vinnunni. Enn er verið að rífast um það hver beri mestu skattbyrðina. Aldraðir og öryrkjar sitja uppi með óskiljanlegt kerfi og reglur um afkomu sína og Tryggingastofnun er svelt þannig að hún getur vart skilað því hlutverki sínu að afgreiða og reikna út bætur og svara fyrirspurnum vegna fjárskorts.

Það þarf að einfalda kerfið, það þarf að minnka tekjutengingar og auðvitað afnema tekjutengingar við tekjur maka og koma á afkomutryggingu, eins og við höfum lagt til. Endurkröfur á lífeyrisþega vegna ofgreiðslu eru árvissar, 15 þúsund manns á ári lenda í því með öllum þeim óþægindum, leiðindum og stórfelldum vandræðum sem þeim fylgja hjá mörgum og ekkert er gert til að bæta ástandið. Á meðan Norðurlandaþjóðirnar hvetja lífeyrisþega sína til að reyna að bæta við sig tekjum til að geta leyft sér eitthvað aukalega í ellinni situr okkar fólk í fátæktargildrum og undir endurkröfuhótunum. Ekkert er gefið eftir í tekjutengingunum.

Lífeyrisþegar líða fyrir ástandið og ríkisstjórnin vanrækir algjörlega málaflokkinn. Hún hefur eitt ár til að gera bragarbót á þessu en það er bara beðið eftir Ásmundi. Hér er handónýt ríkisstjórn á ferðinni sem er búin að gefast upp. Þetta er eins og annað, það lýsir í hnotskurn vanvirðingu stjórnarflokkanna við aldraða og öryrkja.