132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[15:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir mjög málefnalegan og mjög skýran málflutning. Það er mjög mikilvægt að taka þetta málefni til umræðu hér á Alþingi, en þótt málflutningurinn hafi verið skýr og málefnalegur er því ekki að leyna að verkefnið er flókið.

Staðreyndin er sú að þetta lýtur að tveimur þáttum, annars vegar framkvæmd á verkefnum Tryggingastofnunar. Það er augljóst að hún ræður ekki við verkefnið að fullu og ég tek undir með hv. málshefjanda að það er mikilvægt að tryggja henni tæki og mannskap til þess að sinna þeim verkefnum sem hún á að sinna.

Síðan vil ég einnig taka undir með hv. málshefjanda að það er mikilvægt að kerfið byggi á gagnsæjum og skýrum reglum. En við skulum ekki gleyma því að skýrar og gagnsæjar reglur eru ekki sjálfkrafa ávísun á meira réttlæti. Flókið kerfi getur einmitt verið komið til sögunnar vegna þess að menn eru að ná fram ýmsum réttlætissjónarmiðum og þetta er hlutur sem við megum ekki gleyma. Við eigum ekki að setja samasemmerki á milli flækjustigsins og réttlætisins. Þarna þurfum við að gæta að því að gerast ekki of alhæfingasöm.

Á tvo þætti vil ég leggja áherslu þegar snýr að breytingum á því kerfi sem við búum við. Annars vegar vil ég taka undir með hv. málshefjanda sem að því leyti rímaði kröfur aldraðra, Landssambands eldri borgara, að tryggja öldruðum og öryrkjum frítekjumark í tekjum, ég held að þetta sé mjög mikilvægt.

Hitt sem er mjög mikilvægt, og þar tek ég undir með hv. þm. Þuríði Backman, (Forseti hringir.) að aftengja tekjutryggingu við tekjur maka.