132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðhald sauðfjárveikivarnagirðinga.

582. mál
[18:05]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er orðið sjaldan sem maður heyrir í þinginu svona harðskeyttar og skemmtilegar ræður á fallegu íslensku máli. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvað hann hefur sett textann vel saman og hnýtt í hann góðum skömmum.

Það er einfalt að segja frá því að ég álít að ástand varnargirðinganna sé alls ekki viðunandi og er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að mikið hafi verið tekið á og miklir peningar verið lagðir í margar varnargirðingar á síðustu árum, eru því miður, eins og hv. þingmaður lýsti, miklir veikleikar í varnargirðingum. Margt breytist. Miklar ferðir eru um landið og menn hafa farið óvarlega með girðingar. Við stöndum frammi fyrir því að verið er að klippa þær í sundur af ferðamönnum um landið o.s.frv.

Þetta er heilmikið vandamál sem hv. þingmaður minnist á. Ég verð að segja fyrir mig hvað fjármagn varðar, þá hefur það ekki fengist í fjárlögum eins og þyrfti til þessara varnarlína. Varnarlínurnar eru náttúrlega gríðarlega margar í landinu. Sumar eru varðaðar með ám og vötnum og aðrar eru í þessum girðingum sem margar eru orðnar gamlar og þurfa mikið viðhald og standast engan veginn tímans tönn.

Ég verð að segja fyrir mig að meira fjármagn þarf í fjárlögum til þeirra verkefna. Ég mun reyna að fylgja því eftir og sé að ég á þar góðan bandamann í hv. þingmanni og örugglega í þinginu eftir svona hnarreista ræðu hér.

Hvað varðar síðari spurninguna skipaði ég í apríl nefnd til að endurskoða alla þá þætti sem varða búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim. Þar með talið skipulag varnarlínanna. Ég held að miðað við breytt ástand þurfum við að fara líka yfir það. Núverandi kerfi varnarlína á rætur að rekja til miðbiks síðustu aldar og er landinu samkvæmt þessu fyrirkomulagi skipt í 37 varnarhólf. Hvorki meira né minna en 37 varnarhólf. Tel ég nauðsynlegt að yfirfara forsendur þess í ljósi breyttra aðstæðna.

Á síðustu árum hafa orðið umfangsmiklar breytingar í landbúnaði hér á landi. Sauðfjárframleiðendum hefur fækkað og framleiðslan minnkað og æ fleiri íbúar sveitanna stunda önnur störf. Önnur starfsemi en sauðfjárbúskapur er farinn að skipta mun meira máli en áður og vaxandi óánægja er með þær takmarkanir sem lög og varnir gegn búfjársjúkdómum setja ýmsum öðrum atvinnurekstri og tómstundastarfsemi. Vil ég kanna hvort unnt sé að koma til móts við þessi sjónarmið án þess að slaka á sjúkdómavörnunum, sem ég virði mikils og tel náttúrlega og get sagt úr þessum stól að við höfum náð á síðustu árum og áratugum alveg gríðarlegum árangri í baráttunni við riðu og aðra sjúkdóma. Okkar séreinkenni í búskap er hið heilbrigða búfé og góða ástand sem hér ríkir.

Ég hef aldrei farið í launkofa með að sá maður sem hv. þingmaður nefndi hér til sögunnar, Sigurður Sigurðarson dýralæknir, hefur auðvitað unnið þrekvirki í málinu og verið mikill baráttumaður fyrir að taka fast á þeim sjúkdómi. Ég held að það hafi skilað okkur miklu þó það beri nú á því á nýjan leik að riðan skjóti upp kollinum. En þetta voru að verða afar fá tilfelli á síðustu árum en hefur aðeins fjölgað aftur, því miður.

Hæstv. forseti. Ég vil standa að þessu öllu sem best. Ég vona að sú nefnd sem ég hef skipað til að fara yfir þetta breytta viðhorf og hvort hægt sé að mæta þessu með öðrum hætti, fækka hólfum, einfalda línur og kerfi, skili mér sem fyrst tillögum. Svo mun ég áfram leita eftir að sækjast eftir því fjármagni sem er mikilvægt til að viðhalda hinum fornu varnarlínum meðan þær eiga að standa sem slíkar.