132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðarnýtingarnefnd.

601. mál
[18:17]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Sá sem þannig spyr og flytur ræðu eins og hv. þingmaður gerði hér er að hugsa um framtíðina og hina nýju skógarauðlind. Það var sennilega hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sem fyrstur fór að hugsa um úrvinnslu þessarar auðlindar og fyrir það vil ég þakka.

Eins og hann minntist á var þingsályktun að hans frumkvæði samþykkt hér í þinginu 2003 og viðarnýtingarnefnd var stofnuð 13. október 2004 í framhaldi af því. Nefndin starfar sjálfstætt og heyrir ekki undir landbúnaðarráðuneytið. Að nefndinni standa Skógrækt ríkisins, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, BYKO, landsbundnu skógræktarverkefnin, Landssamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands, Trétækniráðgjöf og Viðarmiðlun Skógræktar ríkisins. Formaður nefndarinnar er Eiríkur Þorsteinsson.

Vegna umræðu í þá veru að ráðuneytið skipaði sérstaka nefnd til að kanna úrvinnslu, nýtingu og markað á skógarafurðum taldi ráðuneytið eðlilegra að það styrkti ofangreinda nefnd fremur en að skipa nýja, í framhaldi af þingsályktuninni eins og ég sagði hér, og varð það niðurstaðan. Því hefur landbúnaðarráðherra styrkt viðarnýtingarnefnd þrisvar sinnum af ráðstöfunarfé sínu og nú um áramótin var nefndinni veitt hálf milljón kr. af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Þetta sýnir að stjórnvöld eru nú ekki alveg sofandi.

Leitað var til formanns nefndarinnar um upplýsingar um starf nefndarinnar og kemur þar fram að meginmarkmið nefndarinnar er að finna nýtingu á grisjunarvið úr fyrstu og annarri grisjun. Verksvið viðarnýtingarnefndar skiptist í þrjá höfuðþætti: Viðarmiðlun, skógarverkefni og vöruþróunarverkefni. Til að sinna þessum þáttum hefur nefndin m.a. ákveðið, skilgreint og fjármagnað einstök verkefni, unnið að vöruþróun á grisjunarviði úr íslenskum skógum, sinnt fræðslu og unnið að markaðssetningu á skógarafurðum.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður:

„Hverju hefur nefndin áorkað frá því að hún tók til starfa?“

Viðarnýtingarnefnd hefur unnið markvisst að vöruþróun þar sem lögð er áhersla á nýtingu á við sem kemur úr fyrstu og annarri grisjun. Þau vöruþróunarverkefni sem staðið hafa upp úr eru í fyrsta lagi flísar sem eru notaðar til að klæða veggi og er verið að skoða kaup á vélum og búnaði til að koma af stað framleiðslu. Í öðru lagi stiklur sem eru 15–20 cm langir viðarbútar sem raðað er saman og mynda gangstíg og plön. BYKO hefur nú þegar selt þessa vöru. Hesthúsabásar eru úr lerki, nú þegar hafa tvö hesthús verið innréttuð með þessu. Í dag er verið að kanna með framleiðendur sem vilja hefja framleiðslu á þessu. Reykflís, verið er að skoða möguleika á frekari markaðssetningu á þessum vöruflokki og þá í neytendaformi. Spænir til að nota undir húsdýr, þessi vara er enn á tilraunastigi. Svo er það að lokum efni sem notað er í skólunum.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður:

„Hvernig er fyrirhugað að nýta allan þann við sem til verður vegna aukinnar skógræktar í landinu?“

Nytjaskógrækt er ört vaxandi og er stunduð um allt land undir merkjum landshlutabundinna skógræktarverkefna. Þau eru enn ung að árum og því litlar sem engar afurðir komnar úr þeim skógum. Ár frá ári hafa afurðir frá þessum skógum Skógræktarinnar aukist og tala má um vísi að timburframleiðslu. Þrátt fyrir litla framleiðslu í dag er full ástæða til að vera vakandi og undirbúinn þegar skógarnir fara að gefa af sér marktækar afurðir. Það verður þó vart fyrr en eftir 20–40 ár sem framleiðslan fer að skila sér í einhverjum mæli.

Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009, sem iðnaðarráðherra hefur lagt fram er kafli um að efla beri rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun sem byggir á sérkennum lands og þjóðar og líkleg er til árangurs um verðmætasköpun á landsbyggðinni. Vil ég taka undir þennan þátt sem mjög mikilvægan.

Ég vil hér segja fyrir mig að ég tel að það séu mjög miklir möguleikar í þessu og það sé mjög mikilvægt að fylgja þessari hugsun eftir. Við höfum verið í samstarfi við nágrannalöndin, landbúnaðarráðuneytið og Skógrækt ríkisins um framtíð okkar og átt samvinnu við þá um þetta. Ég sé þetta fyrir mér sem sérstaka íslenska afurð sem verður eftirsótt t.d. hér í íbúðarhús, þ.e. efnið úr skógunum, og svo til þess að auðga líf okkar í landinu með því að sem flestir læri að nota efnið frá skóginum.