132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Viðarnýtingarnefnd.

601. mál
[18:25]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er vert að minnast þess að skógarnir eru farnir að hafa mikil áhrif bæði á búsetu í sveitum og menningarlíf okkar. Það hefur komið í ljós að Íslendingar koma hlutfallslega jafnoft í skóg og Danir og fleiri, en áhuginn fyrir skógunum hér hjá almenningi er mjög mikill enda hafa skógar Skógræktar ríkisins, eða þjóðarinnar, verið markvisst opnaðir og skapaðar þar gönguleiðir til þess að vekja athygli á því hvað skógarlundurinn og skógurinn skiptir miklu máli. Hér í búsetunni skiptir það mjög miklu máli, gerir landið meira aðlaðandi sem gerir það að verkum að við sjáum hækkað jarðaverð og meiri áhuga fyrir sveitinni. Skógurinn er hluti af þeirri miklu breytingu sem dregur menn að landinu og gerir það að verkum að þar vill fólk búa. Það eru mörg svona ný atriði sem þar skipta mjög miklu máli og skógurinn er þar einn hluti.

Ég verð að segja fyrir mig að ég fagna líka áhuga fyrirtækjanna í landinu og fólksins, stóru fyrirtækjanna sem koma inn í þetta samstarf og sjá í því tækifæri til þess að hjálpa til við að búa til úr skógunum efni og auðlind, það ber að þakka. Þar eru gríðarleg tækifæri eins og ég fór hér yfir sem þegar liggja fyrir í starfi viðarnýtingarnefndar. Ég hygg að það sé grunnur að mikilli framtíð hvað verkefni varðar í úrvinnslu skógarafurða okkar í framtíðinni. Svo vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og þann áhuga sem hann hefur sýnt málinu um svo langa hríð.