132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar ef meiri háttar slys eða hamfarir verða.

599. mál
[18:48]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér þetta ástand sem hv. þingmaður er að lýsa. Það verði jarðskjálfti og það koma væntanlega fljótlega fréttir í Ríkisútvarpinu en honum finnst þær ekki koma nógu snemma, ef ég skil hann rétt, um hvað er að gerast. Ef jarðskjálftinn er þess eðlis að mannskaðar verði eða tjón á eignum eða hætta fyrir fólk er stofnað til almannavarnarástands og þá fer ákveðið kerfi í gang. Það er það kerfi sem Almannavarnir stýra og náin samvinna er á milli Ríkisútvarpsins og Almannavarna og ákveðnar áætlanir um boðun.

Ef þetta eru ekki þannig hamfarir, ég er ekki að deila við hv. þingmann um að jarðskjálftar séu hamfarir, ef þetta er ekki þannig jarðskjálfti að ástæða sé til að lýsa yfir almannavarnarástandi þá er það ekki gert. Þá fer málið ekki í þann farveg. Þá verða væntanlega sagðar fréttir af því að jarðskjálfti hafi orðið og hann hafi mælst þetta og þetta. Hann hafi ekki valdið neinu tjóni og síðan koma væntanlega fréttir um eftirskjálfta o.s.frv. Þetta er eins og við vitum.

Mér finnst að hv. þingmaður sé að ræða um hvað sé eðlilegt að líði langur tími frá því að skjálfti verður þar til sagt er frá honum í Ríkisútvarpi. Sem gamall blaðamaður, hann hefur sjálfur starfað á ljósvakamiðli, veit hann að þetta er náttúrlega undir því komið hvernig menn meta sem fara með stjórn frétta og ráða yfir dagskránni og ráða yfir aðgangi að hljóðnemanum hvað sé nauðsynlegt að rjúfa dagskrána fljótt ef það gerist ekki í fréttatíma til að segja frá að svona atburðir hafi gerst.

Mér sýnist að allt sé réttmætt í sjálfu sér sem þingmaðurinn segir. Auðvitað vill almenningur fá fljótt fréttir um þetta en það er eitthvað sem þeir stjórna sem stjórna Ríkisútvarpinu.