132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Flutningur verkefna Þjóðskrár.

657. mál
[18:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að sýna jafnmikla og góða viðleitni til að flytja verkefni út á land, verkefni sem hefur verið sinnt í Reykjavík. Það er full ástæða að geta þess sem vel er gert í þessum efnum.

Hér hefur verið talað um verkefni Þjóðskrár. Ég hygg og hef sagt það áður á þinginu að þessi verkefni séu vel til þess fallin að vera flutt út á landsbyggðina. Líka verkefni sem Hagstofan hefur haft með höndum. Það er nú þannig að það hafa orðið mjög miklar tækniframfarir á mörgum undanförnum árum, tölvutengingar og annað verða sífellt betri. Maður skyldi ætla að ýmiss konar fjarvinnsla, jafnvel þar sem er verið að fara með stóra gagnabanka, ætti í eðli sínu að vera tiltölulega einföld og þyrfti ekki heldur að vera svo dýrt að koma því þannig fyrir að svona verkefni yrðu unnin úti á landsbyggðinni. Því það er rétt eins og hv. fyrirspyrjandi gat um áðan í ræðu (Forseti hringir.) sinni, að á litlu stöðunum úti á landi getur þetta orðið stóriðja.