132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Flutningur verkefna Þjóðskrár.

657. mál
[18:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Já, ég tek undir það. Ég verð að lýsa ánægju minni með þau störf sem hæstv. dómsmálaráðherra lýsti yfir að væri hægt að flytja og væri í bígerð að flytja. Vissulega eru sýslumannsembættin að sameinast. Við erum hins vegar með tvo starfsmenn í Ólafsfirði sem vinna þar á sýsluskrifstofunni og geri ég ráð fyrir að aukin verkefni þurfi til til að staða þeirra falli ekki niður. Því verður öðruvísi háttað eftir einhver ár þegar samgöngurnar verða orðnar betri.

Það var ánægjulegt að heyra að það eru greinilega mörg verkefni sem hægt er að flytja. Ég fór sjálf niður í Þjóðskrá einmitt í morgun og náði mér þar í eitt vottorð. Mér fannst það starf vera þess háttar að það gæti verið hvar sem er. Það er auðvitað bara brotabrot af því sem þar fer fram. En með tilliti til þess sem verið hefur í byggðaáætlun undanfarin ár og loforð um flutning starfa er þetta að gerast núna bara síðasta ár að verið er að flytja störf.

Í framhaldi af því sem ráðherra upplýsti áðan mundi ég vilja spyrja hann um öll þau starfssvið sem hann taldi upp hvort eitthvað er fyrirhugað hvert þessi störf eiga að fara eða hvort það er algerlega ófyrirséð. Þetta séu bara hugmyndir um það sem hægt er að gera enn þá eða hvort hugsunin er komin eitthvað lengra.