132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vatnsafl og álframleiðsla.

650. mál
[19:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í upphafi er mér bæði skylt og ljúft að segja frá því að kveikjan að þessari fyrirspurn eru upplýsingar úr ágætri bók, nýrri, Andra Snæs Magnasonar, sem heitir Draumalandið, þar sem hann fjallar m.a. um tölur frá viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu og hæstv. ráðherra um vatnsafl og álframleiðslu.

Í þremur ritum frá viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu og undirstofnunum þess einhvers konar á síðustu 11 árum, það eru ritin Lowest energy prices frá 1995, Orka á Íslandi frá 2003 og Doing business in Iceland, 3. útg. frá 2004, er því haldið fram að nýtanlegt vatnsafl á Íslandi til raforkuframleiðslu sé 30 teravött alls. Það er sagt að það sé nýtanlegt með hagkvæmum hætti og að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða, eða eins og segir í ritinu Doing business in Iceland, frá 2004, með leyfi forseta, á ensku: „Technically, ecologically and economically feasible hydropower.“

Spurt er um það í fyrsta lagi hvort þessum tveimur ensku ritum sé enn dreift meðal lysthafa erlendis, en tvö ár eru liðin frá útgáfu annars þeirra.

Í öðru lagi er spurt við hvaða virkjunarkosti sé miðað í þessum bæklingum sem segja frá teravöttunum 30, en sem kunnugt er hafa u.þ.b. 7 teravött þegar verið virkjuð, og þegar menn fara að reyna að telja saman þá virkjunarkosti sem fyrir hendi eru eins og rithöfundurinn Andri Snær Magnason gerir, hann lendir í ákveðnum vandræðum því hann verður að taka nánast alla þá virkjunarkosti sem kunnir eru um vatnsafl á Íslandi, þar á meðal virkjunarkosti sem að vísu hafa verið nefndir en menn hafa ekki haft hugmyndaflug, hin síðari ár, til að láta sér detta í hug að mundu nokkurn tíma vera „feasible“, svo notað sé kynningarmál iðnaðarráðuneytisins, af umhverfisástæðum.

Í þriðja lagi er spurt að því hvort enn standi sú tala, milljón tonn, sem hæstv. ráðherra hélt fram í mars í fyrra að væri hámark ársframleiðslu á áli á Íslandi. Það gerði hún á iðnþingi og endurtók það svo í fréttum í útvarpinu.