132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vatnsafl og álframleiðsla.

650. mál
[19:17]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eftir því sem lausleg könnun starfsmanna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis kemst næst er bæklingurinn Lowest Energy Prices ekki í dreifingu neins staðar svo vitað sé. Enda er hér um að ræða 11 ára gamalt rit sem gefið var út í tíð Sighvats Björgvinssonar í stóli iðnaðarráðherra. Hið sama gildir um þriðju útgáfu ritsins Doing Business in Iceland sem út kom árið 2004, og gefið var út af Fjárfestingarstofu. Sú útgáfa er ekki í dreifingu. Ritið hefur komið út á hverju ári síðan árið 2003 og nú síðast fyrr á þessu ári. Nýrri útgáfum á því að vera dreift í stað þeirra sem eldri eru, auk þess sem tekið er fram í bæklingnum að nýjustu uppfærslu hverju sinni megi finna á vef Fjárfestingarstofu, www.invest.is.

Svarið við annarri spurningu. Tölur um virkjanlegt vatnsfall og jarðvarma hafa breyst nokkuð í tímans rás. Á orkuþingi árið 1981 skýrði Haukur Tómasson, forstöðumaður Orkustofnunar, frá mati sínu á vatnsorku landsins. Reiknaðist honum til að staðarorka þeirrar úrkomu sem á landið fellur væri um 285 teravattstundir ári og er þá miðað við að hver vatnsdropi skilaði allri fallorku sinni allt til sjávar, sem auðvitað er ekki gerlegt.

Til að nálgast líklega tölu um tæknilega nýtanlega orku voru aðeins þeir árkaflar notaðir þar sem rennslisorkan var yfir eitt megavatt á hvern fimm kílómetra kafla. Með þessu móti var tæknilega nýtanleg vatnsorka metin vera 64 teravattstundir á ári og hefur þá hvorki verið tekið tillit til hagkvæmni né umhverfisáhrifa.

Fyrir um það bil 30 árum var annarri aðferð beitt til að meta virkjunarkosti. Var þá farið í gegnum hugmyndir um virkjunarkosti vatnsorkunnar, en sumar þeirra voru þá byggðar á fremur veikum grunni. Kostnaður var lauslega metinn og aðeins teknir með í reikninginn þeir vatnsorkukostir sem voru taldir hagkvæmir. Niðurstaðan var, að miðað við gefnar forsendur, væri framleiðslugetan 45 teravattstundir á ári.

Sem viðmið um hagkvæmni settu menn framleiðslukostnað í nýjum kjarnorkuverum. Ljóst var að margir af þessum orkukostum yrðu umdeildir svo sem virkjanir sem skertu rennsli í þekktustu fossum landsins. Því var þriðjungur sleginn af og niðurstaðan var talin 30 teravattstundir á ári.

Í riti iðnaðarráðuneytisins frá 1994 um innlendar orkulindir til vinnslu raforku, voru virkjunarhugmyndir endurskoðaðar og þá talið að tæknilegur möguleiki á hagkvæmum kostum væri um 42 teravattstundir á ári. Ekki var lagt mat á það í ritinu hvort virkjunum kunni að vera hafnað eða tilhögun breytt vegna umhverfisröskunar. Þar sem flestum smærri virkjunarkostum var sleppt má segja að heildarmatið hafi verið óbreytt.

Ég reikna hins vegar með að með spurningu sinni sé hv. þingmaður að vísa til Orku Íslands, upplýsingarits um orkumál, sem Orkustofnun og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gáfu út í nóvember árið 2003. Í því riti segir m.a., með leyfi forseta:

„Enda þótt Ísland búi yfir miklum ónýttum orkulindum eru þær ekki óþrjótandi. Einungis er til lauslegt mat á stærð orkulindanna og því er allnokkur óvissa þegar kemur að því að meta hve stór hluti þeirra er nýtanlegur, bæði með tilliti til tæknilegra möguleika, hagkvæmni og umhverfissjónarmiða. Oftast er miðað við að nýtanlegt vatnsafl sé 30 teravattstundir á ári og jarðhiti til raforkuvinnslu 20 teravattstundir, eða alls 50 teravattstundir á ári. Þá er búið að draga frá þann hluta sem áætlað er að ekki verði virkjaður af umhverfisástæðum.“

Í ritinu segir sem sagt aðeins að oftast hafi verið miðað við 30 teravattstundir á ári í nýtanlegu vatnsafli. Stundum hefur sú viðmiðun raunar verið dregin í efa eins og orkumálastjóri gerði t.d. á ársfundi Orkustofnunar árið 2004 þar sem hann taldi að ef til vill væri réttara að tala um 26 teravattstundir á ári í stað 30 teravattstundir í virkjanlegu vatnsafli en 23 í stað 20 í háhita.

Forstjóri íslenskra orkurannsókna hefur sömuleiðis greint frá því opinberlega að með tilliti til ýmissa forsendna megi draga í efa svo mikla orkugetu úr virkjanlegu vatnsafli en trúlega megi hins vegar bæta við þegar rætt sé um virkjanlegan jarðvarma. Að framansögðu má ljóst vera, að enginn listi er til sem gefur nákvæmlega þessar 30 teravattstundir á ári sem oft hefur verið miðað við.

Sem svar við þriðju spurningu. Í ávarpi mínu á iðnþingi fyrir um ári síðan fjallaði ég nokkuð um stóriðjumál. Það markaði ég hins vegar ekki neina stefnu sem miðar að einhverri ákveðinni ársframleiðslugetu álvera hér á landi og hef ekki í hyggju að gera svo. Hv. þingmaður hefur því rangt eftir mér úr fyrrgreindu ávarpi. Hitt er aftur rétt að í viðtölum við fjölmiðla í kjölfar iðnþings lét ég hafa eftir mér að stóriðjan bjargaði ekki öllu þótt svo hún væri góð með öðru. Einhvern (Forseti hringir.) tíma kæmi að því að við yrðum að draga úr framleiðslu á áli og það væri ekki æskilegt að ganga lengra í þeim efnum. Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar. (Gripið fram í.)