132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vatnsafl og álframleiðsla.

650. mál
[19:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Merði Árnasyni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Það hefði verið fengur ef hæstv. ráðherra hefði haft meiri tíma til að svara.

En mig langar að benda hæstv. ráðherra á að orkumálastjóri, Þorkell Helgason, sagði á fundi 16. október 1999, fyrsta kynningarfundi fyrir verkefnið „Maður – nýting – náttúra“, sem var undanfari rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma, að af þessum 64 teravattstundum sem væri allt virkjanlegt vatnsafl á Íslandi, væru svona 40 til 45 teravattstundir sem væri mögulegt tæknilega að virkja. Síðan þyrftu menn að slá af einum þriðja eða einum fjórða vegna umhverfissjónarmiða eða vegna þess að hagkvæmni gæti hafa verið vanmetin. Þá standa eftir, sagði Þorkell Helgason 1999, 20 til 30 teravattstundir. Hæstv. ráðherra verður væntanlega að hætta að reikna með þessum 30 teravattstundum.