132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vatnsafl og álframleiðsla.

650. mál
[19:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt til þess að vita að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafa undir forustu núverandi hæstv. ráðherra dregið til baka þær upplýsingar sem áður voru hafðar fyrir satt um að hámark vatnsorku sem væri hægt að nýta hér og stæðist öll umhverfispróf, væri 30 teravattstundir. Það er auðvitað út af fyrir sig ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli ekki koma með nýja tölu í þessu skyni, heldur vitna í undirmenn sína sem hafi verið með lægri tölur, 26 teravattstundir fyrir nokkrum árum.

En það eru ekki nema eitt og hálft ár, hygg ég, eitt og hálft til tvö ár, síðan þessi sami ráðherra, að mig minnir, í eigin líkama, eða að minnsta kosti í formi sendisveitar var á alþjóðaorkuþingi í Ástralíu, að kynna þessa miklu paradís með Lowest Energy Prices, þar sem mætti nota 30 teravattstundir án umhverfisáhrifa.

Um síðari hlutann verð ég að segja, forseti, að ég sætti mig ekki við að ráðherra komi hér og neiti eigin orðum á iðnþinginu og í fréttum sem af því voru sagðar. Að vísu er ræðu ráðherra hæstv. ekki lengur að finna á vef ráðuneytis hennar. En þessa tölu má bæði sjá í fréttabréfi Samtaka iðnaðarins og í frétt sem sögð var í Ríkisútvarpinu kl. 18, 20. mars í fyrra. Þar segist iðnaðarráðherra geta nefnt að milljón tonn sé eitthvað sem vel sé hægt að ráða við en síðan þurfi að fara að spyrna við fótum og leggja meiri áherslu úrvinnslu úr áli og annað slíkt.

Enn gleggri er sú frásögn sem eftir henni var höfð í fréttabréfi Samtaka iðnaðarins (Forseti hringir.) og sá partur af ræðunni sem rithöfundurinn Andri Snær Magnason (Forseti hringir.) tók af heimasíðu iðnaðarráðuneytisins á sínum tíma og (Forseti hringir.) birtir í bók sinni og ég skora á iðnaðarráðherra að hafna hér ef hún þorir.