132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að ræða fréttatilkynningu sem kom frá Hafrannsóknastofnun í gær. Enn eina ferðina fáum við slæmar fréttir af uppbyggingu okkar dýrmætustu fiskstofna. Þorskurinn og ýsan eru nánast í frjálsu falli. Þessi fréttatilkynning segir okkur að stofnvísitala þorsks hafi lækkað um 15% frá því í fyrra. Með öðrum orðum: Fiskifræðingarnir fundu 15% minna af þorski en á síðasta ári. Þetta er enn ein slæm frétt af viðkomu þorskstofnsins.

Ég minni á að í fyrra fundu fiskifræðingarnir nálega 20% minna af þorski en árið þar á undan þannig að fallið heldur áfram. Það er augljóst þegar maður les áfram í þessari fréttatilkynningu. Árgangar 2001 og 2004 eru mjög lélegir, 2003-árgangurinn er talinn frekar lélegur, árgangur 2002 er nærri meðallagi, nýjasti árgangurinn 2005 er talinn í meðallagi. Síðan kemur í ljós að holdafar þorsksins er enn verra en í fyrra og var það þó slæmt. Það var eitt það versta frá því að mælingar hófust árið 1996. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvar endar þetta? Á hvaða vegferð erum við?

Þegar við skoðum síðan niðurstöðuna varðandi ýsuna þá er ýsan líka í falli. Þar er nú kominn fram stærsti árgangur sögunnar, 2003-árgangurinn. Það kemur í ljós að hann er grindhoraður, hann hefur ekki nóg að éta. Það er viðvarandi fæðuskortur í hafinu og við hljótum að spyrja okkur á hvaða vegferð við erum. Ég verð að segja að við í Frjálslynda flokknum erum hundleiðir á að koma upp ár eftir ár með aðvörunarorð um að við séum á vitlausri leið og að menn þurfi að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Við erum hundleiðir á að ekkert skuli hlustað á varnaðarorð okkar eða það sem við höfum að segja. Við erum orðnir hundleiðir á að fá ár eftir ár sömu fréttirnar sem valda sífellt meiri vonbrigðum og áhyggjum.