132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þau tíðindi sem við ræðum í dag og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vakti máls á, um 15% lækkun á stofnvísitölu þorsksins, eru að sjálfsögðu enn einn áfellisdómurinn yfir kvótakerfinu. Vandinn er ekki bara braskið með veiðiheimildirnar og byggðaröskunin, sem kvótakerfið hefur valdið á síðustu árum, gríðarleg tilfærsla á auðæfum í sameign þjóðarinnar, heldur ekki síður rányrkjan sem kerfið augljóslega veldur. Kvótakerfið elur af sér rányrkju á lífríki hafsins, rányrkju sem rústar hafsbotninum í kringum Ísland.

Viðbrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra við þessum tíðindum, við enn einum válegum tíðindum, enn einni vísbendingunni um hörmungar í hafinu út af veiðarfæranotkun okkar Íslendinga, út af rányrkjunni sem kvótakerfið elur af sér, eru engin. Viðbrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra eru engin önnur en að láta hörmungarnar ríða yfir og aðhafast ekkert.

Auðvitað á að fara fram umhverfismat, heildstætt mat á notkun á veiðarfærum og áhrifum þeirra á lífríkið á sjávarbotninn í kringum Ísland. Að sjálfsögðu ættu hin vitrænu pólitísku viðbrögð hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera eitthvað slíkt. Um það ætti ekki að þurfa að deila í þingsal. Svo sjálfsögð viðbrögð væru það enda um að ræða grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, fiskveiðarnar sjálfar. Það er ekki nóg með að áhrif kvótakerfisins séu þau að veikja byggðir landsins heldur er augljóst að það elur af sér rányrkju sem rústar hafsbotninum. Við hljótum að kalla eftir ögn meira afgerandi viðbrögðum frá hæstv. sjávarútvegsráðherra.