132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þær ræður sem hér hafa verið haldnar hljóta að vekja upp notalega fortíðarþrá í brjósti hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta eru nákvæmlega sömu ræðurnar og hæstv. ráðherra flutti fyrr á árum meðan hann var andstæðingur kvótakerfisins. Hann benti þá á nákvæmlega sömu afleiðingar kvótakerfisins og hv. þingmenn hafa reifað.

Við megum ekki gleyma því að kvótakerfið var upphaflega ekki sett upp fyrir bankana eða fjármálalífið heldur til að vernda fiskstofna. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að menn hafa gert ýsustofninn að umræðuefni. Núna búum við við einhvern stærsta ýsustofn sem hefur fram komið og það kemur fram í skýrslunni að holdafar ýsunnar er ákaflega rýrt. Það er vegna þess að það er ekki nægileg fæða fyrir ýsuna. Við þessar aðstæður, ef menn væru að hugsa um hámarksafrakstur úr hafinu og hugsa um það sem stofninum væri fyrir bestu, mundu menn gefa ýsuveiðar frjálsar. Það er hið rétta líffræðilega svar við þeirri stöðu sem komin er upp gagnvart þeirri tilteknu tegund.

Hvers vegna íhugar hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki að gefa ýsuveiðar frjálsar? Það er vegna þess að það mundi veikja undirstöður lánveitinga til útgerðarinnar. Það mundi hugsanlega veikja undirstöður bankakerfisins. Nú er svo komið að fjármálalífið og bankarnir eru farnir að stjórna fiskveiðunum. Það er ekki staða stofnanna sem ræður því hvaða ákvarðanir við tökum heldur hagsmunir bankanna. Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er ekki kominn tími til að hann rifji upp sínar gömlu ræður? Er hann ekki reiðubúinn, sem ábyrgur ráðherra, að berjast fyrir því að veiðin á ýsu verði við þessar aðstæður gefin frjáls?