132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög skilmerkilega ræðu. Hún byggir á greiningu á þeim breytingum sem átt hafa sér stað í heiminum. Þetta er gagnlegur og góður grunnur fyrir umræðuna í dag.

Málflutningur hæstv. ráðherra var skýr, ekki síst að því leyti hve hallur hann er undir stefnu núverandi Bandaríkjastjórnar, þess vegna hefði ræðan getað komið beint frá Pentagon. Afstaðan til mannréttindabrota í heiminum er dæmi þar um. Fullkomið gagnrýnisleysi á yfirgang herveldanna með Bandaríkin í broddi fylkingar, ekki orð um pyndingar og mannréttindabrot sem sannanlega hafa verið framin á þeirra vegum. Heimsmyndin verður þannig mjög einsýn og sannast sagna hrýs mér hugur við því ef slík heimssýn réði afstöðu fulltrúa Íslands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórnin kappkostar að ná fram með óheyrilegum fjáraustri. Að öllu þessu mun ég víkja í ræðu minni á eftir og einnig því fyrirhyggjuleysi sem ríkisstjórnin og reyndar aðrir stjórnmálaflokkar einnig, að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði undanskilinni, hafa sýnt varðandi viðskilnað Bandaríkjamanna frá herstöðinni á Miðnesheiði.

Það sem ég vildi hins vegar staðnæmast við í þessu stutta andsvari er sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að hann sjái það fyrir sér að rekstur Keflavíkurflugvallar verði einkavæddur og seldur. Er ekki tími til að líta með öðrum augum á þennan grunnþátt í öryggismálum þjóðarinnar sem flugvöllurinn óneitanlega er og verður í ríkari mæli eftir að Bandaríkin til allrar lukku eru nú að hafa sig á brott þaðan.