132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:29]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af einhverjum ástæðum var þetta fyrirsjáanlegt andsvar frá hv. þingmanni. Það sem ég segi í þessari ræðu hvað þetta varðar er auðvitað skoðun mín á því hvernig hægt er að sjá fyrir sér framtíðarrekstrarfyrirkomulag á alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Þá er ég ekki að tala um varnarhliðina eða þau atriði sem munu snúa að framtíðarvarnarsamstarfinu við Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið, heldur einungis rekstrinum á alþjóðaflugvellinum. Það eru til ýmsar fyrirmyndir um slíkan rekstur. Þær eru í öllum nálægum löndum. Yfirleitt er það þannig að einn aðili rekur flugvöllinn, gjarnan hlutafélag sem er þá ábyrgt fyrir allri starfsemi sem þar er, þar með talið rekstrinum á flugbrautum, snjómokstri, slökkviliði og öðrum slíkum þáttum en ber svo einnig ábyrgð á því að öllum skyldum sé fullnægt hvað varðar flugvernd og þá skilmála sem settir eru af Alþjóðaflugmálastofnuninni.

Ég tel eðlilegt að við fetum okkur inn á svipaðar brautir í þessu efni eins og gert er í nálægum löndum, þó svo það kunni að taka einhvern tíma og gerist ekki í einu vetfangi eða strax. En það er brýnt að fá botn í það með hvaða hætti við ætlum að gera þetta á næstunni og síðan þurfum við að marka stefnu um það hvernig við viljum sjá þetta þegar fram í sækir. Það er það sem ég er að segja hér fyrir mína hönd. Hvort síðan kemur til greina að selja hlut í slíku hlutafélagi er auðvitað opin spurning en það hefur verið gert mjög víða í nálægum löndum, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér sérstaklega, bæði sjálfur og í gegnum samtök þau sem hann er í forustu fyrir.