132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:33]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, þvert á móti. Ég er alveg ósammála hv. þingmanni. En varðandi reksturinn á flugvellinum í Keflavík þá er núna tækifæri til að koma því máli í búning. Við erum auðvitað með Flugstöð Leifs Eiríkssonar í ákveðnu formi. Hún er hlutafélag í eigu ríkisins, nýbúin að halda sinn aðalfund. Sá rekstur gengur mjög vel og hefur skilað ágætum arði og góðri tekjuniðurstöðu.

Það sem þarf að gera núna varðandi sjálfan flugvöllinn er auðvitað að ganga frá forminu á þessu. Ég bendi hv. þingmanni á að í nálægum löndum, bæði í Bretlandi, Danmörku og reyndar miklu víðar í Evrópu er til alveg ákveðið líkan af því hvernig eigi að reka svona flugvöll. Ég tel rétt að við skoðum það mjög vel og fordómalaust, hv. þingmaður, gagnvart eignarhaldi á slíku.