132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ámælisvert að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki hafa skýrt betur frá gangi samningaviðræðna við Bandaríkjamenn. Ég tel það ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagði í gær að dagurinn í dag væri vettvangur til umræðu um slíka hluti. Ég ætla þó ekki að drepa frekar á það í þessu andsvari mínu.

Mér þótti merkilegt að í ræðu sinni eyddi hæstv. ráðherra nánast engum orðum í það sem ég tel vera svartasta blettinn á utanríkisstefnu þessarar ríkisstjórnar, þ.e. stuðningurinn við innrásina í Írak. Við sjáum hvert hún hefur leitt. Írak er í miðri borgarastyrjöld, tugir þúsunda saklausra borgara hafa týnt lífinu. Breska læknaritið Lancet setur reyndar töluna sem 100 þúsund.

Hans Blix, sem var yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna, sagði í íslenska sjónvarpinu í gær að það hefðu verið mistök hjá íslensku ríkisstjórninni að skoða ekki betur þau gögn sem lágu fyrir og voru grundvöllur ákvörðunar íslensku ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið í ljós að allt það sem sagt var um gereyðingarvopn reyndist vera fals og blekkingar.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í samtali við Blaðið á sl. hausti að ef hann hefði vitað að ekki væru gereyðingarvopn í Írak hefði hann ekki fallist á stuðning við innrásina. Ég túlka þetta svo að nú telji hæstv. forsætisráðherra að það hafi verið mistök af Íslendingum að styðja innrásina.

Ég hef spurningu til hæstv. utanríkisráðherra og aðeins eina og hún er þessi: Er hæstv. utanríkisráðherra sammála forsætisráðherra? Telur hann í ljósi þeirra upplýsinga sem síðar hafa komið fram um að gereyðingarvopn er ekki að finna Írak að stuðningur Íslendinga við innrásina hafi verið mistök?