132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:36]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að sú ákvörðun sem tekin var á þeim tíma af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi verið rétt. Hún var tekin á ákveðnum forsendum á þeim tíma og ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun.

Hins vegar hefur margt gerst í Írak síðan þá og hlutirnir hafa því miður ekki þróast að öllu leyti á þann veg sem menn gerðu sér von um. Hins vegar má deila um það hvort írakska þjóðin sé verr stödd í heild sinni en hún var undir ógnarstjórn þess manns sem þá réði þar öllu. Það eru vonbrigði að ekki er búið að mynda nýja ríkisstjórn í Írak en það er gleðiefni að það var mikil þátttaka í lýðræðislegum kosningum. Lýðræðið er að festa þar rótum og vonandi ná forustumennirnir í landinu sem kosnir hafa verið í frjálsum kosningum að ná saman um það að skaffa landinu þá ríkisstjórn sem það á skilið og sem getur tekið við völdum og tekið utan um vandamál þessa merka ríkis.